Hvað gengur þeim til?

Halldór Árnason

Þinghúshöfðinn er einn fegursti útsýnisstaður í Hólminum. Þegar horft er þaðan yfir gamla miðbæjarkjarnann í átt að gömlu kirkjunni er ein bygging í forgrunni sem alltaf hefur stungið í augun. Langiskúrinn, sem hefur lokið sínu upphaflega hlutverki, er algjörlega á skjön við önnur hús. Hversu oft hef ég óskað að þessi bygging væri horfin og önnur bygging komin í staðinn sem félli betur að miðbæjarkjarnanum. Ég var farinn að sætta mig við óbreytt ástand næstu áratugina. Það var því fagnaðarefni þegar fréttir bárust um að athafnafólk í Hólminum væri tilbúið að kaupa Langaskúrinn til niðurrifs og byggja þar veglegt hús sem fellur vel að skipulagi gömlu miðbæjarkvosarinnar. Ég horfi með mikilli gleði til þess tíma þegar fyrirhuguðum framkvæmdum verður lokið og hin nýja miðbæjarmynd birtist sjónum okkar. Vona að þess verði ekki langt að bíða.

Ég spyr mig því hvað þeim gengur til Erlu Friðriksdóttur og Lárusi Ástmari Hannessyni með skrifum í Stykkishólmspóstinum að undanförnu. Með þeim er verið að gera störf Sturlu Böðvarssonar bæjarstjóra tortryggileg í augum bæjarbúa með óverðskulduðum hætti.

Sturla bæjarstjóri hefur oftar en einu sinni gert skilmerkilega grein fyrir öllum málvöxtum við sölu á Langaskúrnum. Við það er engu að bæta. Óumdeilt er að meirihluti bæjarstjórnar og bæjarstjóri fóru í einu og öllu eftir þeim lögum og reglum sem um starfshætti bæjarfulltrúa og bæjarstjórnar gilda. Brugðist var með réttum hætti við breyttum forsendum og lýðræðislegar ákvarðanir teknar.

Sturlu og störf hans hef ég þekkt af eigin raun um langt skeið. Hann er mjög fylginn sér, sérstaklega þegar hagsmunir Stykkishólms og Snæfellsness eru annars vegar. Hann hefur tileinkað sér heiðarleika í öllum sínum störfum og gerðum og má ekki vamm sitt vita. Sturla er vakinn og sofinn yfir framþróun bæjarins enda hefur orðið veruleg breyting til batnaðar á flestum ef ekki öllum sviðum bæjarfélagsins á síðustu árum. Nægir að lesa pistlana sem bæjarstjóri hefur skrifað í Stykkishólmspóstinn um mál sem unnið er að á vegum bæjarins.

Miðbæjarkvosin er kennileiti bæjarins okkar. Unnið hefur verið að breytingum á skipulagi miðbæjarins af fagmennsku. Það eru hagsmunir bæjarbúa að unnið verði hratt og vel að koma þeim breytingum í framkvæmd. Gildir það ekki síst um þær byggingar sem þar eiga að rísa. Lítil bæjarfélög eiga undir högg að sækja og mega ekki við að sérhagsmunir eða annarleg sjónarmið yfirskyggi bæjarhag. Varðveitum jákvæðni og bjartsýni í Hólminum.

Halldór Árnason, íbúi í Stykkishólmi.