Hvað verður um Háls- og bakdeildina?

Sú staða sem komin er upp í Háls – og bakdeild Sjúkrahússins í Stykkishólmi er afleit.
Það er miður að Jósepi Blöndal yfirlækni deildarinnar og helsta hugmyndafræðingi til 25 ára hafi ekki verið boðinn ásættanlegur samningur með þeim afleiðngum að Jósep hefur látið af störfum. Það er ljóst að stjórn HVE (Heilbrigðisstofnun Vestur-lands) hafði engan áhuga á að kanna hvort hægt væri að miðla málum og ósk undirritaðs um að bæjarráðsfulltrúar fengju tæki-færi á að kanna hvort möguleiki væri á að ná sáttum var strax hafnað. Það sýnir að enginn vilji var hjá stjórn HVE að ná annari niðurstöðu.

Okkur bæjarfulltrúum ber skylda til að standa vörð um atvinnulífið eins og kostur er. Stundum fáum við hvatningu frá bæjarbúum til verka. Mér er minnistætt að fyrir 5 árum þegar ég var forseti bæjarstjórnar skrifaði góðborgari einmitt hvatningarbréf varðandi Háls- og bakdeildina. Borgarinn kastaði fram þeirri spurning hvað meirihluti bæjarstjórnar ætlaði að gera í málefnum deildarinnar?

Jósep Blöndal væri að eldast og óvissa væri um framtíð deildarinnar af þeim sökum.
Ekki hef ég að undanförnu séð hvatningu til okkar bæjarfulltrúa í þessum dúr. Það verður hinsvegar að koma fram í þessu samhengi að fyrir fund bæjarráðs sem haldinn var þann 15. júni síðastliðinn kom undirritaður með eftirfarandi tillögu:

Tillaga til bæjarráðs
Geri það að tillögu minni að bæjarstjórn Stykkishólms ásamt atvinnumálanefnd óski eftir fundi með forsvarsfólki Háls- og bakdeildar. Á fundinn verði boðaðir lykilstarfsmenn deildarinnar auk fulltrúa frá stjórn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
Greinargerð: Mikil óvissa er með þessa mikilvægu deild sem er einstök á landsvísu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Starfsfólk deildarinnar býr yfir mikilli og dýrmætri reynslu. Jósep Blöndal yfirlæknir verður að láta af störfum innan nokkurra mánaða sökum aldurs. Það er því nauðsynlegt að fara yfir stöðuna og meta hvernig deildin stendur og ekki síst kanna hvort bæjaryfirvöld geti lagst á árar með deildinni henni til eflingar og öryggis.

Tillagan kom ekki til afgreiðslu heldur henni frestað fram yfir fund með forstöðumanni HVE. Það er ljóst að rétt hefði verið að taka þessa tillögu til afgreiðslu og samþykkja á þessum tíma og setja vinnu í gang á vegum bæjarins og gera öfluga tilraun til að sporna við að þessi staða kæmi upp. Tillagan hefur ekki enn verið tekin til afgreiðslu.
Þessi stjórnsýsla hjá bæjaryfirvöldum á að sjálfsögðu ekki að eiga sér stað en hver ber þó ábyrgð á sínum verkum er varðar vinnubrögð.
Það er afar nöturlegt að Háls- og bakdeildin skuli vera í þessari stöðu nokkrum vikum fyrir 25 ára afmæli deildarinnar.

Á fundi bæjarráðs með stjórn HVE var stjórnin með þær yfirlýsingar að efla skuli Háls- og bakdeildina. Þessar yfirlýsingar hljóma léttvægar í mín eyru og á stjórnin þann kost einan að láta verkin tala.

Háls- og bakdeildin hefur notið faglegs trausts og verið Stykkishólmsbæ og mörgum skjólstæðingum hennar afar mikilvæg. Mjög hæfir starfsmenn starfa við deildina og mikilvægt að þeir fái tækifæri og traust til að halda áfram því faglega og góða starfi sem byggt hefur verið upp á undanförnum 25 árum.

Leggjumst öll á árar og látum í okkur heyra. Við munum berjast fyrir tilveru deildarinnar og sjáum til þess að staðið verði við yfirlýsingarnar.
Tökum góðborgarann okkur til fyrirmyndar og hvetjum hvort annað til góðra verka. Látum hins vegar ekki pólitískt litróf og skoðanir hafa áhrif hverjir eru hvattir og hvenær við látum í okkur heyra.

Lárus Ástmar Hannesson bæjarfulltrúi.