Hvaða skoðun á ég að hafa?

1380177_10151920254554626_1408214780_nEins og flestir sem þekkja mig vita hef ég mikinn áhuga á bæjarmálum og fylgist meðal annars vel með heimasíðu Stykkishólmsbæjar og fundargerðum. Á vafri mínu um heimasíðuna rak ég augun í föstudagsbréf skólastjóra sem að hluta til hljómar eins og svar við skrifum Sigfúsar Magnússonar í síðasta Pósti. Í bréfinu kemur fram að á síðasta kennarafundi hafi nýsamþykktar skipulagsteikningar af byggingu Amtsbókasafns, ljósmyndasafns og skólabókasafns verið kynntar. Þá vitnar hann einnig í vinnuhóp sem skipaður var til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Hver sú sameiginlega niðurstaða er kemur ekki fram í skrifum skólastjórans og hvergi hægt að finna fundargerðir eða erindisbréf þessa hóps á heimasíðu bæjarins. Hópurinn sem skólastjórinn vitnar til er væntanlega nefnd/vinnuhópur sem skipaður var á fundi bæjarstjórnar 26. febrúar 2015.

Hópurinn var skipaður um það bil einum mánuði eftir að fyrstu tilboð voru opnuð í núverandi húsnæði Amtsbókasafnsins og mánuði áður en ákvörðun fjögurra bæjarfulltrúa lá fyrir um að Amtsbókasafnið yrði flutt í nýtt húsnæði við grunnskólann.

Í fundargerð bæjarstjórnar kemur fram að vinnuhópurinn sé skipaður til að skilgreina húsnæðisþörf GSS, Tónlistarskóla og Amtsbókasafns.
Vinnuhópinn skipa: Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, Helga Sveinsdóttir, Hólmgeir Þorsteinsson, Ragnar M. Ragnarsson og Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri sem er formaður hópsins. Ritari hópsins og tæknilegur ráðgjafi er Sigurbjartur Loftsson. Samráðshópur er skipaður þannig: Gunnar Svanlaugsson, Jóhanna Guðmundsdóttir og Ragnheiður Óladóttir.
Í föstudagsbréfinu skorar Gunnar skólastjóri á okkur svo að ég vitni í hans orð “að sameinast um þessar sameiginlegu niðurstöður sem nú hafa verið samþykktar af öllum hluteigandi og fara ekki að eyða dýrmætum tíma í að karpa um útlit eða annað. Þau skoðanaskipti fóru fram í undirbúningshópnum okkar”.

Nú veit ég ekki hvort Gunnar á við niðurstöður vinnhópsins, sem skipaður var til að skilgreina húsnæðisþörf eða samráðshópinn sem hann situr í og komist hefur að sameiginlegri niðurstöðu sem ég finn hvergi. Mig langar mjög mikið að vita um hvað ég á að vera sammála hópnum.

Því spyr ég; hverjar eru niðurstöður þessa hóps sem skorað er á mig að vera sammála?

Helsti kosturinn við að búa við lýðræði er að geta haft skoðanir á málum þó þær falli ekki að skoðunum undirbúningshóps eða einhvers annars. Þannig virkar stjórnsýsla í lýðræðislegu samfélagi. Mér þykir því mjög leitt að sjá þetta hjá skólastjóranum þar sem ég get ekki skilið hann öðruvísi en að hann skori á okkur að hafa sömu skoðun og undirbúningshópurinn í stað þess að hafa okkar eigin skoðanir. Eins finnst mér ekki vera rétti vettvangurinn að svara skrifum Sigfúsar á heimasíðu Stykkishólmsbæjar sé hann að því.

Ég hvet alla til að láta skoðanir sínar í ljós um málefni sem varða okkur öll og setja þær fram hér á þessum vettvangi. Við höfum öll frelsi til orða og athafna og til að tjá skoðanir okkar um málefni Stykkishólms enda viljum við öll hag bæjarins sem bestan.
Um leið og ég slæ botninn í þessi skrif langar mig til að nota tækifærið og óska Gunnari velfarnaðar á nýjum vettvangi þar sem hann hefur sagt starfi sínu lausu við skólann og heldur á vit nýrra ævintýra.

Oddrún Ásta Sverrisdóttir