Hvert stefnir Ásbyrgi?

Í Stykkishólms-Póstinum 26 janúar er fjallað um húsnæðismál hjá X-inu og Ásbyrgi. Þar er haft eftir bæjarstjóra að „rétt sé að undirstrika að rekstur Ásbyrgis er í höndum framkvæmdastjóra FSS (Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga) og því ekki á valdi Stykkishólmsbæjar að hlutast til um innri málefni þeirrar stofnunnar“. Mér er vel ljóst að við vinnum hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, en er ekki FSS rekin af sveitarfélögunum á nesinu og Stykkishólmsbær eitt af þeim sveitarfélögum?

FSS leigir húsnæðið að Skólastíg 11 sem hýsir vinnustofuna Ásbyrgi. Það er því dapurt að fá þau skilaboð í bæjarblaðinu að húsnæðismál Ásbyrgis sé ekki á valdi Stykkishólmsbæjar að hlutast til um. Ásbyrgi hefur nú starfað síðan í ágúst 2012 og vaxið og þróast nokkuð hratt. Það vita þeir sem hafa haft áhuga og metnað til að kynna sér starfsemina. Það eru fjölmargir bæjarbúar sem hafa lagt okkur lið og styrkt starfsemina með ráðum og dáð. Það erum við svo sannarlega þakklát fyrir.

Ég hef lagt mikinn metnað í starf mitt í Ásbyrgi og er stolt af þeim árangri sem þar hefur náðst. Á vinnustað eins og Ásbyrgi eru ekki alltaf jólin – það skilja þeir sem til þekkja. Við höfum náð mörgum vinnusamningum og fjölbreyttum verkefnum – það hefur víða vakið athygli. Fyrir störf mín í Ásbyrgi var ég tilnefnd til hvatningarverðlauna Öryrkjabandalagsins á degi fatlaðra nú rétt fyrir jól. Sem íbúi Stykkishólmsbæjar hef ég lagt mörgum góðum málefnum lið ekki af því að þau hafi fallið undir mitt hlutverk sem íbúi í Nestúni heldur af því að ég hef metnað og áhuga fyrir því að gera góðan bæ betri. Og þar með auka lífsgæði þeirra sem hér búa. Mikið rosalega væri það nú gott ef málaflokkur fatlaðra fengi meiri metnað hér í okkar annars ágæta bæ.

Með vinsemd og virðingu,
Hanna Jónsdóttir