Í lok árs

Það er umtalað á veraldarvefnum að 2016 hafi verið hörmulegt ár. Sér í lagi er það umtalað á erlendum vefmiðlum. Líklegast vegna þess að hver stórstjarnan lést á fætur annarri, nú síðast Zsa Zsa Gabor.

Persónulega er ég sáttur með árið og hef því ákveðið að lista örfá atriði sem ber að fagna. Fallegir og góðir hlutir sem gerðust inn á milli styrjalda og voðaverka.

Oft er kvartað yfir því að ekki séu sagðar skemmtilegar fréttir. Þær snúist alltaf um niðurrif og neikvæðni. En hafa ber í huga að neikvæðni og gagnrýni er ekki það sama. Auk þess eru það þessar gagnrýnu (neikvæðu) fréttir sem ná flugi og verða umtalaðar. Það litar kannski skoðun fólks að þær fréttir sem mesta umfjöllun fá eru þær sem spyrja gagnrýnna spurninga.

Margvíslegt hefur komið í dagsljósið á árinu sem er að líða sem grunlaus almúginn hefði ekki haft hugmynd um ef ekki væri fyrir ómælda vinnu þeirra sem komu því til leiðar. Ber þar helst að nefna Panama-skjölin og nú síðast Brúnegg. Bæði málin eru enn í fullum gangi.

Fyrst og fremst ber að nefna að loksins eigum við landslið sem á fullt erindi á stórmót í íþróttum sem ekki er handboltamót. Því má nú horfa á leiki án þess að heyra lélegt handboltarokk í leikhléum. Því ber að fagna. Við getum líka hætt að telja útlendingum trú um að handbolti sé hin eina sanna íþrótt, nú þegar við eigum flott landslið í íþróttum sem eru töff eins og körfu- og fótbolta.

Við kusum okkur nýjan forseta og hans stærstu mistök hingað til hafa verið að skarta buffi á opinberum vettvangi. Því ber að fagna. Einnig nýtur hann samanburðar kollega sinna út í heimi, sbr. Duterte og Trump. Það er kannski ekki erfiður samanburður, allir hinir frambjóðendur til forseta Íslands hefðu komið vel út. Allir.

Aðrar þjóðir úti í heimi kusu sér einnig forseta og fólk í valdastöður. Í Evrópu hafa þjóðernissinnuð hægri-öfl fengið byr undir báða vængi. Hér á Íslandi fékk fylkingin sem næst stóð öfga-hægri stefnu álíka mörg atkvæði og íbúafjöldi á Flötunum. Því ber að fagna. Hinsvegar er erfitt að fagna uppgangi þeirra sem aðhyllast svona stjórnmálastefnu úti í hinum stóra heimi. Hér á landi erum við allavega ekki tilbúin að veita svona flokkum umboð til stjórnunar.

Það er ágætt að búa á Íslandi þó margt megi betur fara. Sumir eiga ekki nóg til að ná endum saman og margir eiga um sárt að binda. En til eru þeir sem eru reiðubúnir að hjálpa öðrum. Sjálfboðaliðar ýmissa samtaka sem setja hag annarra fram fyrir sína. Því ber að fagna. Björgunarsveitirnar eru gott dæmi um þetta.

Á síðustu dögum ársins, eins og alla aðra daga, er mikilvægt að hugsa um þá sem eiga um sárt að binda. Því ber að fagna að til er ósérhlífið fólk sem er annt um náungann og tilbúið að leggja þeim lið sem þurfa á að halda.

Takk fyrir veturinn, sjáumst á nýju ári.