Í tilefni kynningarfundarvelferðarráðherra, miðvikudaginn 24. apríl 2013

Merkum áfanga er nú náð í alllöngu ferli, þar sem fjallað var um framtíð starfsemi St.Franciskusspítala.

Sagan hefst eiginlega í kjölfar svokallaðrar sameiningar heilbrigðisstofnana á Vesturlandi , en fljótlega varð starfsfólki SFS ljóst, að stjórn hinnar sameinuðu stofnunar vildi veg spítalans sem minnstan og stytztan. Þetta staðfestist svo á fundi stjórnar hinnar sameinuðu stofnunar með starfsfólki SFS þ.4.nóvember, 2010, en þar gaf lækningaforstjóri hennar út þá tilskipan, að sem minnst skyldi lagt inn af sjúkratilfellum – einkum bráðatilfellum – á SFS, en öllu slíku skyldi beint á sjúkrahúsið á Akranesi. Þetta þrátt fyrir að fyrir svokallaða sameiningu hefðu 216 bráðatilfelli verið vistuð á spítalanum á einu ári. Samhliða þessari tilskipan var lögð af vaktaþjónusta rannsóknarstofu, og tveimur sjúkraliðum, sem annazt höfðu röntgenmyndatöku, var sagt upp þeim hluta starfs síns og bráðaþjónusta á þeim vettvangi þar með aflögð.

 

Merkum áfanga er nú náð í alllöngu ferli, þar sem fjallað var um framtíð starfsemi St.Franciskusspítala.

Sagan hefst eiginlega í kjölfar svokallaðrar sameiningar heilbrigðisstofnana á Vesturlandi , en fljótlega varð starfsfólki SFS ljóst, að stjórn hinnar sameinuðu stofnunar vildi veg spítalans sem minnstan og stytztan. Þetta staðfestist svo á fundi stjórnar hinnar sameinuðu stofnunar með starfsfólki SFS þ.4.nóvember, 2010, en þar gaf lækningaforstjóri hennar út þá tilskipan, að sem minnst skyldi lagt inn af sjúkratilfellum – einkum bráðatilfellum – á SFS, en öllu slíku skyldi beint á sjúkrahúsið á Akranesi. Þetta þrátt fyrir að fyrir svokallaða sameiningu hefðu 216 bráðatilfelli verið vistuð á spítalanum á einu ári. Samhliða þessari tilskipan var lögð af vaktaþjónusta rannsóknarstofu, og tveimur sjúkraliðum, sem annazt höfðu röntgenmyndatöku, var sagt upp þeim hluta starfs síns og bráðaþjónusta á þeim vettvangi þar með aflögð.

Starfsfólki stofnunarinnar var ljóst, að með þessu yrði legudeildin á 2.hæð órekstrarhæf og þar með í raun spítalaþjónustan öll, þ.m.t. Háls- og bakdeild, en sú deild þjónar öllu landinu og hefur gert um árabil.Myndi þetta væntanlega þýða, að öll starfsemi stofnunarinnar yrði lögð af nema heilsugæzlan.Var því sent mótmælabréf til stjórnar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, undirritað af öllu fagfólki SFS og heilsugæzlustöðvar, en einnig fylgdu með tölvupóstar frá læknum í Grundarfirði, Ólafsvík og Búðardal, þar sem lýst var yfir stuðningi við tillögur fagfólks SFS um áframhaldandi bráðaþjónustu.

Til að gera langa sögu stutta, enduðu deilur þessar með því að velferðarráðuneyti átti frumkvæði að stofnun samstarfshóps um málið og áttu sæti í honum af hálfu ráðunneytisins Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og Jón Baldursson, yfirlæknir ráðuneytisins og fyrrum yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala, Steinunn Sigurðardóttir, hjúkrunarforstjóri og Þórir Bergmundsson, lækningaforstjóri , af hálfu stjórnar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Gyða Steinsdóttir, bæjarstjóri, og Lárus Hannesson, forseti bæjarstjórnar, af hálfu Stykkishólms og Ann Linda Denner, sjúkraþjálfari ásamt undirrituðum af hálfu SFS . Ljóst var í upphafi, að afstaða ráðuneytisins til starfsemi Háls- og bakdeildar var mjög jákvæð, og því snerust störf hópsins langmest um aðra starfsemi í húsinu. Má lesa niðurstöður hópsins þar að lútandi í skjali á heimasíðu ráðuneytisins (sjá Endurskoðun starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi. Júní 2011). Eru íbúar Stykkishólms og Snæfellsness alls hvattir til að kynna sér niðurstöður skýrslunnar. Segja má að vatnaskil hafi orðið í vinnu samstarfshópsins, þegar bæjarstjórn Stykkishólms lagði til að öll starfsemi dvalarheimilis bæjarins,bæði hjúkrunar- og dvalarrými, yrði flutt á SFS. Með því yrði til heppileg rekstrareining, þ.e.hjúkrunarrými, sjúkrarými/bráðarými, rými Háls- og bakdeildar og dvalarrými, alls nærfellt 40 rými.

Niðurstöður samstarfshópsins liggja til grundvallar þeirri hönnun, sem ráðuneytið er að kynna þessa dagana.

Hér hefur ferlinu verið lýst í hnotskurn, og ég vil þakka samstarfsfólki mínu í hópnum fyrir samvinnuna, en hópurinn skilaði niðurstöðum á mettíma, þótt framhaldsferlið yrði nokkuð langdregið, og e.t.v. hefur bæjarbúum þótt heldur lítið um upplýsingagjöf, en meginástæðan var sú, að farið var með vinnu samstarfshópsins sem trúnaðarmál allt þar til niðurstöðurnar voru kynntar.Þá hefur hönnunarvinnan verið býsna flókin, en gera á miklar breytingar á húsnæði SFS.

Ástæða er til að þakka bæjarstjórn Stykkishólms sérstaklega fyrir þann áhuga, velvild og metnað, sem starfsemi SFS hefur verið sýnd af hennar hálfu. Þá er einnig vert að þakka þeim Önnu Sigrúnu og Jóni þeirra framlag, en þekking þeirra á starfsemi og rekstri stofnana sem okkar var hópnum ómetanleg.

Að endingu vil ég bera fram þá frómu ósk, að framhaldið verði sem farsælast og öllum til góðs; einkum þætti mér vænt um sem óflokksbundnum sakleysingja á hinu pólitíska sviði, að menn og konur láti ógert að gera þær framkvæmdir, sem framundan eru að pólitíku bitbeini. Slík sveitamennska í litlu byggðalagi, þar sem mikið er í húfi fyrir alla , er engum til góðs og engum til framdráttar.

Gleðilegt sumar! Jósep Ó.Blöndal, sjúkrahúslæknir