Verum góðir grannar, þvert á öll hreppamörk
Aukin samvinna og samstaða, sterkir skólar, netvæðing og aukin sala afurða beint frá býli eru brýnustu hagsmunamál dreifbýlis á Snæfellsnesi, að mati þeirra sem sóttu íbúafund á Breiðabliki fimmtudaginn 26. mars síðastliðinn.
Fundinn sóttu tæplega 20 manns úr dreifbýli á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppi, Helgafellssveit og Staðarsveit, sem tilheyrir Snæfellsbæ. Fram kom mikil ánægja með það að nú væru nágrannar að ræða málin, sem annars hittust nær aldrei, vegna hreppamarka.
Áhugi er á aukinni samvinnu í sveitum Snæfellsness og á Nesinu öllu, bæði almennt og í einstökum málum, t.d. ferðaþjónustu, jarðhitaleit og fleiru. Auka þurfi samskipti og samstöðu í dreifbýlinu en viðhalda þó sérkennum því heilbrigður hrepparígur megi ekki glatast alveg. Fram komu hugmyndir um sameiginlegar kaffihúsasamkomur, þar sem hægt væri að fara milli sveitanna.
Skólamál voru fundarmönnum ofarlega í huga. Standa þurfi vörð um skólana í dreifbýlinu, enda eru þeir hjarta sveitanna. Hins vegar fækkar börnum á leik- og grunnskólaaldri, líkt og annars staðar. Viðraður var draumur um sameiginlegan skóla að Hofsstöðum, en mönnum ljóst að hann væri ekki raunhæfur. Því þurfi helst að fjölga störfum og fólki í sveitunum. Snæfellsnes sé orðið eitt atvinnusvæði og því ekki nauðsynlegt að búseta og atvinna sé á sama stað.
Bætt netvæðing er mikilvægur þáttur í því að styrkja búsetu í sveitunum, að mati fundarmanna. Rætt var um Fjölbrautaskóla Snæfellinga, sem er eitt af sameiginlegum hagsmunamálum svæðisins, en þar eiga íbúar á sunnanverðu Nesinu ekki aðgang með góðu móti og engin raunhæf lausn í sjónmáli.
Miklar umræður urðu um afurðamál og hvernig þróun undanfarinna ára hefur í raun verið afturför, t.d. fækkun sláturhúsa og auknar kröfur vegna útflutnings. Spennandi tækifæri geti falist í því að auka slátrun og vinnslu matvæla heima í sveitunum m.a. í tengslum við verkefnið Beint frá býli. Það falli líka að sjálfbærri þróun, nýjum áherslum í ferðaþjónustu og aukinni áherslu á gömul gildi. Kenna mætti slátrara- og bruggiðnir við FSN! Fylgja mætti Green Globe verkefninu eftir með því að Snæfellsnes yrði tilraunasvæði í umhverfismálum.
Aukin samvinna íbúa og stofnana á Snæfellsnesi er mikilvæg á þeim tímamótum sem nú blasa við. Samvinnan kann að leiða til sameiningar og þá skiptir miklu að stefna að sama þjónustustigi í dreifbýli og þéttbýli, sögðu íbúar á fundinum á Breiðabliki.
Þetta var annar af fjórum íbúafundum sem Kvarnir, áhugahópur um framtíðina á Snæfellsnesi, stendur fyrir í samvinnu við sveitarfélögin og er umsjón í höndum ILDIS í Grundarfirði. Yfirskrift fundanna er Snæfellsnes á tímamótum hamingja í heimabyggð. Næsti fundur er í Grundarfirði þriðjudaginn 31. mars og sá síðasti í Stykkishólmi fimmtudaginn 2. apríl.
Sigurborg Hannesdóttir