Íslandsmótið í atskák haldið í Stykkishólmi

Íslandsmótið í atskák verður haldið í  Amtbókasafninu í Stykkishólmi dagana 17. til 18. nóvember nk. en mótið er haldið af Skáksambandi Íslands í samstarfi við Stykkishólmsbæ. Mótið er einn stærsti skákviðburður ársins í mótaáætlun sambandsins og má vænta þess að flestir af sterkustu skákmönnum landsins fjölmenni í Hólminn í tilefni þess.

Um er að ræða tveggja daga Íslandsmót og verður mótið sett kl. 13:00 næstkomandi laugardag í húsnæði Amtbókasafnsins. Eftir setninguna fer fram fyrsta umferð mótsins en tefldar verða fimm umferðir á laugardeginum frá kl. 13:00-18:00 og svo aftur fimm umferðir á sunnudeginum frá kl. 13:00-18:00 (hlé verður tekið eftir þriðju og áttundu umferð). Nánari upplýsingar um mótið má annars finna á heimasíðu Skáksambandsins, www.skaksamband.is.

Vert er að taka fram að allir eru velkomnir á mótið og er gert ráð fyrir aðstöðu á staðnum fyrir áhorfendur. Þá verður 9. bekkur Grunnskólans í Stykkishólmi með veitingasölu á meðan á móti stendur en ágóði hennar mun fara í ferðasjóð árlegrar Danmerkurferðar skólans.

Efling skákíþróttar í Stykkishólmi – ákall frá ungmennum á Vesturlandi

Í framhaldi af mótinu mun Skáksamband Íslands, í samstarfi við Skákskóla Íslands og Stykkishólmsbæ, bjóða upp á skákkynningu og skákkennslu í Grunnskóla Stykkishólms í umsjón bestu skákkennara og skákmanna landsins. Tímasetning skákkennslu verður ákveðin í samráði við Grunnskólann í Stykkishólmi en miðað er að því að taka kennsluna inn í skólastarfið þannig að allir nemendur fái tækifæri til þess að taka þátt. Með þessu gefst færi á að efla áhuga á skákíþróttinni í Stykkishólmi auk þess að koma til móts við ákall um eflingu hugaríþrótta sem fram kom á nýafstöðnu Ungmennaþingi Vesturlands.

Áhugi á eflingu skákíþróttar á Snæfellsnesi

Í nýlegri könnun Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH), sem fór fram á Fjölmenningarhátíð Snæfellsnes í Frystiklefanum 20. október sl., var m.a. óskað eftir hugmyndum og óskum frá íbúum á Snæfellsnesi til þess að auka fjölbreytni í íþróttastarfi á Snæfellsnesi. Samkvæmt niðurstöðu þeirrar könnunar hlaut skákíþróttin þar flest atkvæði. Virðist því vera vaxandi áhugi á Snæfellsnesi til þess að styðja enn frekar við skákíþróttina. Með Íslandsmóti í atskák hér í Stykkishólmi og skákkennslu í skólanum er þannig jafnframt komið til móts við þarfir og óskir íbúa á svæðinu.    

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar