Íþróttadagar HSH

This slideshow requires JavaScript.

Verkefnið Íþróttadagar á Snæfellsnesni var í gangi nú á vor- og sumardögum 2018.  Hugmyndin af þessu verkefni var komin til þess að reyna að kynna fyrir öllum börnum og ungmennum á Snæfellsnesi hvað er fjölbreytt og líflegt starf í gangi á nesinu. Hvert félag innan HSH fékk ákveðna íþróttagrein til þess að hafa einn opinn íþróttadag þar sem allir voru velkomnir og aðgangur ókeypis. Þessu var svo raðað upp þannig að hvert félag fékk tvær vikur til þess að halda sinn dag og svo koll af kolli, þetta var sett þannig upp svo að félögin væru ekki að skarast á með sína daga. Þetta verkefni gekk ágætlega en eins og gefur að skilja með svona verkefni sem eru í fyrsta skipti koma fram ákveðnir byrjunarörðugleikar en ætlunin er að halda þessu áfram 2019 og gera þetta enn betur. Hestamannafélagið var með opinn dag fyrir alla sem vilja kynnast hestaíþróttinni betur, UMF Snæfell var með körfuboltadag og UMF Víkingur/Reynir var með knattspyrnudag. Það voru haldnir léttleikar í Staðarsveitinni þar sem frjálsar íþróttir voru í aðalhlutverki og fyrir alla sem vildu kynna sér blakið var það í boði hjá ungmennafélaginu í Grundarfirði. Það náðu þó ekki allir að klára sína daga þar sem golfklúbbarnir ætluðu að halda sameiginlegan dag en náðu því ekki og Skofélag Snæfellsnes þurfti einnig að fella niður sinn dag.

Hér á Snæfellsnesi erum við með öflugt og blómlegt íþróttastarf þar sem hver og einn ætti að finna eitthvað við hæfi og akstursfjarlægðirnar erum ekki mjög langar. Við erum í góðu samstarfi í knattspyrnunni undir Snæfellsnessamstarfinu, og óhætt er að segja að við náum að fara í mun fleiri og stærri verkefni en ef ekki væri samstarf. Einnig erum við hluti af góðu samstarfi í frjálsum íþróttum í SamVest og það kemur sér mjög vel fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á því. Það er mikilvægt að við sem búum hérna reynum að vinna saman í því að efla og auka það starf sem er hérna og auka hendur eru alltaf vel þegnar.

Við vonumst til þess að íþróttadagarnir verði ennþá betri 2019!

Ef þið hafið eitthvað sem þið viljið koma á framfæri endilega sendið mér línu á hsh@hsh.is