Laugardagur , 22. september 2018

Jæja, hvað skal kjósa?

Nú þarf maður að fara að spá í hvað sé vitlegast að kjósa.

Er eitthvað sem situr útundan í þessu bæjarfélagi?

Þá er mér hugsað upp á Dvalarheimili. Þar hefur ekkert mátt gera undanfarin ár, jafnvel áratugi því það er alltaf verið að fara að flytja inn á sjúkrahús innan næstu þriggja ára, allavega er það sagt fyrir allar kosningar! Já talandi um það, þetta finnst mér vægast sagt vitlaus framkvæmd að fara að byggja dvalarheimili í gömlu húsi, fyrst að rífa niður og svo að byggja upp, hefði ekki verið jafn dýrt eða ódýrara að byggja nýtt? Allavega skemmtilegri aðstaða inni og úti, þarna verður aldrei almennileg útiaðstaða fyrir fólkið í blessaðri norðaustanáttinni okkar. Hvers vegna gátum við ekki byggt nýtt hús eins og öll nágrannasveitafélögin? Ólafsvík, Grundarfjörður og Búðardalur, allstaðar byggt nýtt. Nei, hér skal bjarga gömlum húskofa undir okkar gamla fólk, og með þessum flutningum verður fólkinu á Dvalarheimilinu og þeim í íbúðunum stíað í sundur. Þetta fólk hittist í kaffi og matartímum og svo á öðrum stundum og er sá félagsskapur góður og gefur mikið af sér.

Hvað þá sameining eldhúsanna? Ekki trúi ég því að það hafi verið fjárhagslega viturleg framkvæmd að kaupa bíl (fjölnotabílinn) undir flutning á matnum og maturinn passar örugglega ekki saman fyrir Dvalarheimili og skóla.

Aftur upp á Dvaló. Ég nenni ekki að tala um herbergin, þá verð ég fúll, en bílastæðin sem okkar fólk leggur í eru einu bílastæði bæjarins sem ekki eru malbikuð, þessi bílastæði (ef bílastæði skal kalla) eru svo hallandi að erfitt er að leggja og komast út fyrir fullfrískt fólk, hvað þá þegar maður fer að eldast! Þetta ræddi ég á stjórnarfundi Dvalarheimilisins þar sem ég var varamaður fyrir einu til tveimur árum, þá átti að fara að hækka og laga Skólastíginn þannig að þetta mátti bíða og bíður enn. Á sama fundi bar ég upp þá tillögu um að byggja sólpall fyrir framan húsið. Það voru ekki til neinir peningar í það og kom ekki til greina. Nú getur fólkið farið út á stétt og sest þar á trébekk sem þar er en ef þú ert á hjólastól þarftu að fara með gát til að fljúga ekki niður hallann. Já, vel á minnst, hjólastólabíll er ekki til staðar. Fólk sem bundið er við hjólastól skal bara vera heima. Ég tala af reynslu vegna móður minnar sem kemst ekki lengur í venjulegan bíl, hefði ekki verið svolítið vitlegra að kaupa hjólastólabíl heldur en matarbílinn góða? Eða gera samning við einhvern sem ræki slíkan bíl? Þá væri hægt að fara reglulega á rúntinn með fólkið og í aðrar ferðir sem þau þurfa að fara.

Jæja, eftir þessa pælingu mína er niðurstaðan sú að kjósa þann lista sem ætlar að gera átak þarna uppfrá og ekki nóg að ætla eins og hefur verið fyrir undanfarnar kosningar, heldur komi til með að gera hlutina og það strax.

Með vinsemd að vopni,
Agnar Jónasson