Jákvæð þróun í rekstri og efnahag Stykkishólmsbæjar

Nokkur umræða og greinarskrif hefur verið um ársreikning Stykkishólmsbæjar.
Fyrir þá sem kynna sér málið er stóra fréttin af uppgjöri Stykkishólmsbæjar vegna ársins 2017 þessi; það er hagnaður af reglulegri starfsemi bæjarins þrátt fyrir, aukna þjónustu stofnana, miklar framkvæmdir í gatnagerð, stækkun leikskólans, endurnýjun tækja slökkviliðs og áhaldahúss og verulega styrki til félagsstarfs í bænum.
Einskiptis greiðsla til Brúar lífeyrissjóðs að upphæð 41.5 milljónir króna er færð til gjalda 2017 samkvæmt sérstakri reglugerð. Sú greiðsla er til þess að tryggja framtíðar lífeyrisréttindi starfsmanna bæjarins en hefur ekkert með árangur í rekstri bæjarins að gera. Sú aðgerð segir ekkert um rekstur bæjarins að öðru leyti. Þá er vert að geta þess að í fyrsta sinni árið 2016 var rekstur Dvalarheimilisins færður sem B-hlutastarfsemi hjá bænum. Var áður utan uppgjörs hvað reksturinn varðar. Það er fróðlegt að bera saman afkomu bæjarsjóðs milli ára tímabilið 2010 til 2017. Sú útkoma er svo sem hér segir þegar halli Dvalarheimilis er tekinn frá 2016 og 2017 sem og framlagið til Brúar lífeyrissjóðs árið 2017. Tölur eru á verðlagi hvers árs og hafa því ekki verið verðbættar.

Árið       Afkoma hvers árs af reglulegri starfsemi
2010      -73 milljónir í halla
2011      -48 milljónir í halla
2012       +4 milljónir í hagnað
2013       -18 milljónir í halla
2014      +36 milljónir í hagnað
2015      +33 milljónir í hagnað
2016      +63 milljónir í hagnað
2017      +59 milljónir í hagnað

Halli hjá bæjarsjóði kjörtímabilið 2010 til 2014 var 135 milljónir króna. Því setti Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga ströng skilyrði um endurskipulagningu og sparnað sem átti að leiða til þess að jöfnuður fengist. Hagnaður yfirstandandi kjörtímabils 2014-2018 af reglulegri starfsemi er 191 milljón króna og því blasir við að kröfur Eftirlitsnefndar hafa verið teknar til greina og mikilvægur árangur náðst í rekstri sveitarfélagsins. Ef við gjaldfærum framlagið í lífeyrissjóðinn 2017 sem ekki var gert á síðasta kjörtímabili er hagnaðurinn samt 149.5 milljónir á móti 135 milljóna halla kjörtímabilið 2010-2014.

Samkvæmt skýrslu KPMG endurskoðunar var skuldaviðmið ársins 2013 -153% og var því yfir löglegum mörkum sem er 150%. Skuldaviðmið ársins 2017 er 138% og er áætlað 127% árið 2018, 125% árið 2019, 119% árið 2020 og 104% árið 2021. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar blasir það við að fjárhagur Stykkishólmsbæjar er traustur, greiðslustaða góð um áramót og lánstraustið ótvírætt svo sem sjá má á viðbrögðum Lánasjóðsins og Arionbanka sem veittu lánafyrirgreiðslu svo ljúka mætti mikilvægum framkvæmdum.

Rekstrartölur frá síðasta kjörtímabili má sjá undir þessum lið á heimasíðu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en þar er rekstur Dvalarheimilis inni í uppgjöri árið 2016.

Það er mikilvægt að koma hinu sanna fram um bættan efnahag og rekstur Stykkishólmsbæjar og frábærar horfur næstu árin ef vel verður haldið á málum. Ef niðurstaðan væri sú sem verið er að fleipra með hefðu endurskoðendur KPMG án nokkurs vafa fjallað um það í endurskoðunarskýrslunni og varað við og lagt fram tillögur um aðgerðir. Þrátt fyrir lántökur til mikilvægra verkefna svo sem við gatnagerð, stækkun leikskólans og byggingu Amtsbókasafnsins er staðan sterk og fullt lánstraust hjá lánastofnunum sem segir mikið um mat á fjárhagslegum styrk. Ástæður þess að hagur bæjarins hefur vænkast er hagræðing , bætt afkoma Hafnarsjóðs, Fráveitu og Þjónustuíbúða og jafnframt hækkandi tekjur vegna fjölgunar gjaldenda og fjölgunar skráðra fasteigna sem bera fasteignaskatt og hækkun á fasteignamati. Þá hækka tekjur frá Jöfnunarsjóði vegna aukinna tekna ríkissjóðs. Vert að geta þess að hagur okkar hefur vænkast vegna þess að íbúum hefur fjölgað frá því að vera 1106 árið 2014 til þess að vera 1187 í dag. Fjölgun íbúa þetta tímabil eru 7.33% sem er í raun ótrúleg íbúafjölgun og óvíða meiri. Þessa fjölgun má einnig sjá í fjölgun nemenda skólanna sem er vissulega jákvætt. Það er því rík ástæða til þess að tala vel um samfélagið okkar í stað þess að búa til neikvæða mynd svo sem reynt er að gera. Það er straumur til okkar og unga fólkið sem sótt hefur menntun og reynslu að flykkjast í bæinn. Verum bjartsýn og tökum vel á móti nýjum íbúum í okkar fagra bæjarfélagi og leggjum á ráðin um hvernig við byggjum upp og sköpum ný atvinnutækifæri.

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri