Jólamót HSH

Frjálsíþróttaráð HSH, með frjálsíþróttadeildum Snæfells og UMFG, stóð fyrir jólamóti í frjálsum íþróttum innanhúss í íþróttahúsinu í Stykkishólmi, sunnudaginn 6. desember sl.
Þar kepptu 8 ára og yngri í langstökki með og án atrennu og 35 m hlaupi og 9-10 ára í sömu greinum að viðbættu hástökki. Ellefu ára og eldri kepptu í hástökki, langstökki með og án atrennu, 35 m hlaupi og kúluvarpi, skipt í fjóra aldursflokka. Mótið var haldið á vegum frjálsíþróttaráðs HSH með aðstoð frjálsíþróttadeilda Snæfells og UMFG. Rétt rúmlega 30 keppendur voru mættir til leiks og komu þeir úr Grundarfirði og Stykkishólmi.
Mótsgestir höfðu verið hvattir til að mæta í skrautlegum og skemmtilegum sokkum. Í upphafi móts stilltu allir sér upp og hlutlaus dómnefnd veitti „verðlaun“ fyrir frumlegustu og jólalegustu sokkana. Vakti þetta kátínu gestanna. Krakkarnir stóðu sig síðan með prýði á mótinu og stemningin var mjög góð. Allir fengu í lokin þátttökuverðlaun frá HSH, fínustu húfu með merki HSH, og í eldri flokkunum var árangurinn lesinn upp en ekki veitt sérstök verðlaun fyrir sæti. Ánægja var með þetta fyrirkomulag.
Af árangri í einstökum greinum má nefna að tvö aldursflokkamet voru sett á mótinu. Margrét Helga Guðmundsdóttir 11 ára úr UMFG kastaði 2 kg kúlu 7,70 m en besti skráði árangur hjá HSH í flokki 11 ára stúlkna innanhúss er 7,58 m kast Unnar Svavarsdóttur árið 2003. Daniel Emmanuel K Kwakye 7 ára úr UMFG stökk 1,62 m í langstökki án atrennu, en besta skráðan árangur í flokki 7 ára og yngri hjá HSH átti Aron Freyr Ragnarsson með stökki uppá 1,59 m frá árinu 2006. Þetta er þó sett fram með fyrirvara um elstu skráningar, en verður staðfest síðar. HSH vill þakka þeim sem skipulögðu og sáu um mótshald og ekki síst öllum þátttakendum og aðstandendum þeirra, sem einnig aðstoðuðu á mótinu.

Björg Ágústsdóttir/Myndir: Erla Friðriksdóttirpakkh