Júlíana – hátíð sögu og bóka 2017

Gunnar Helgason kom á hátíðina í fyrra.

Nú styttist í Júlíönu – hátíð sögu og bóka sem haldin verður 16. – 19. febrúar næstkomandi í Stykkishólmi. Viðfangsefni hátíðarinnar að þessu sinni er þorpið. Dagskráin verður fjölbreytt að vanda og hefst hún formlega með opnun í Vatnasafninu fimmtudaginn 16. febrúar.

Á föstudeginum verður dagskrá víðs vegar um bæinn, meðal annars verður sýning á verkum yngri bekkja Grunnskólans í Amtsbókasafninu þar sem viðfangsefnið er þorpið. Ljóðskáldið og rapparinn Kött Grá Pje (Atli Sigþórsson) var hér á dögunum með vinnustofu fyrir eldri bekki Grunnskólans og fáum við að sjá og heyra afraksturinn á hátíðinni.

Hópur fólks í tengslum við hátíðina les nú af kappi bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur Englaryk, undir stjórn Dagbjartar Höskuldsdóttur.

Eftir hádegi á laugardeginum munu rithöfundarnir Guðrún Eva Mínervudóttir og Kristín Marja Baldursdóttir fjalla um verk sín og Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur mun fjalla um þorpið í íslenskum bókmenntum.

Ekki er hér allt upptalið, verður því mikið um að vera í Hólminum þessa helgi. Dagskráin verður borin í hús í Stykkishólmi þegar nær dregur og verður birt á facebook-síðunni: Júlíana – hátíð sögu og bóka.

Undirbúningsnefndin