Komnir heim!

1404 (1 of 1)

Það er ánægður hópur 24 drengja af Snæfellsnesinu sem nú er kominn heim úr vikuferð á Barcelona Summer Cup, sem er stórt fótboltamót fyrir krakka.
Snæfellsnessamstarfið hefur í mörg ár sent lið til þátttöku á Gothia Cup mótið í Svíþjóð fyrir ungt knattspyrnufólk og hafa stúlkna- og drengjalið 4. flokks skipst á að fara. Í þetta sinn var ákveðið að taka þátt í alþjóðlegu móti í nágrenni Barcelona sem haldið var síðustu dagana í júní. Mótið er fyrir stelpur og stráka á aldrinum 10-16 ára og sendu nokkur íslensk félög lið til þátttöku. Snæfellsnes átti tvö lið úr 4. fl. karla og var meirihluti þeirra á yngra ári, þ.e. fæddir 2003, úr öllum byggðarlögunum á Nesinu. Fóru þeir ásamt Bega þjálfara (Suad Begic) og þremur fararstjórum úr hópi foreldra, auk nokkurs hóps annarra foreldra sem fylgdu drengjunum.
Leikdagarnir voru þrír og voru samtals spilaðir fimm leikir og úrslitaleikur. Hver leikur var 2×25 mínútur og var spilað í um 30 stiga hita. Það er ekkert grín að spila í svo miklum hita og margt sem þarf að passa, sérstaklega að drekka nóg vatn!
Liðin okkar voru saman í riðli með liði ÍR úr Reykjavík, auk liða frá Ísrael, Finnlandi og svo liði heimamanna, Katalóníu. Drengirnir stóðu sig allir mjög vel. Annað lið Snæfellsness varð í fyrsta sæti í riðlinum, með alla leiki unna. Allir keppendur fengu fallegan verðlaunapening og mynd, Snæfellsnes fékk verðlaun fyrir efsta sætið í riðlinum og fyrir flest mörk skoruð, en það var Bjartur Bjarmi Barkarson sem skoraði 15 mörk og reyndist það hæsta markatala leikmanns í öllum riðlum, fyrir utan 7 manna boltann hjá 10 ára drengjum. Einnig fékk Snæfellsnes verðlaun fyrir besta leikmann riðilsins, Martin Mána Kárason og fyrir besta markmanninn, Jason Jens Illugason. Nánar má lesa um mótið á vefsíðu þess http://www.barcelonasummercup.com/en

Öll umgjörð mótsins, aðstaða og þjónusta var til fyrirmyndar. Leikið var á átta góðum völlum og var t.d. mikil fagmennska í dómgæslunni.
Strákarnir gistu á hóteli í bænum Salou, sem er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Barcelona. Hótelið var staðsett aðeins fyrir utan miðbæinn, þar var sundlaug og lítil strönd alveg við hótelið og var þetta óspart notað. Innifalið í þátttökunni var ferð á Camp Nou, leikvöll stórliðs Barcelona og ferð í ævintýragarðinn Port Aventura. Gott gengi íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi gerði ferðina svo enn skemmtilegri því óhætt er að segja að hópurinn hafi fundið fyrir því hvað Ísland fékk góða landkynningu út á frammistöðu “strákanna okkar”.

Svona ferð krefst mikils undirbúnings og það eru mörg handtökin á því heila ári sem farið hefur í undirbúning. Aðstandendur hópsins þakka þeim sem stutt hafa hópinn til fararinnar, t.d. öllum Snæfellingum sem tóku vel á móti sölumönnum okkar og keyptu saltfisk, lakkrís og fleira! Sérstakar þakkir fá: Breiðavík ehf., Útgerðarfélagið Guðmundur Jensson ehf., Soffanías Cecilsson ehf., Guðmundur Runólfsson hf., Hraðfrystihús Hellissands hf., Ragnar og Ásgeir ehf., Verslunin Kassinn ehf., Valafell ehf., KG fiskverkun ehf., Landsbankinn hf., Apótek Ólafsvíkur, Ungmennafélagið Snæfell, Snæfellsbær og Grundarfjarðarbær. Ennfremur þakkir til Umf. Víkings/Reynis fyrir ýmsa aðstoð á liðnu ári.

Barcelonafarar 2016