Laugardagur , 22. september 2018

Kór Vídalínskirkju, Garðabæ á faraldsfæti

Kór Vídalínskirkju, Garðabæ leggur leið sína í Stykkishólm næstkomandi laugardag, 12. maí og verður með vortónleika í Stykkishólmskirkju kl. 16.00

Kórinn sinnir öflugu tónlistarstarfi í Garðasókn – bæði í Vídalínskirkju, Garðabæ og Garðakirkju, Álftanesi.  Auk hefðbundinna kirkjulegra athafna tók kórinn m.a. þátt í metnaðarfullri uppfærslu á Lútherskantötu s.l. haust í tilefni 500 ára siðbótarafmælisins 2017.  Fyrirhuguð vorferð kórsins nú og tónleikarnir eru liðir í kröftugu kórstarfi sem staðið hefur í allan vetur.  Við hæfi er að kveðja vetur konung með skemmtilegri vorferð, sýna sig og sjá aðra.

Efnisskráin samanstendur af kórverkum helguðum Maríu guðsmóður, sem á einkar vel við í Stykkishólmskirkju, þ.s. altaristaflan í kirkjunni er af Maríu með Jesúbarnið.  Eru þar bæði þekkt og sjaldheyrð Maríuvers eftir íslenska og erlenda höfunda, m.a. Báru Grímsdóttur, Rachmaninoff, Gomez, Dvorák og Elgar.  Sungið er á íslensku, latínu, rússnesku og spænsku.  Meðal fáheyrðra verka sem flutt verða er undurfögur Ave María eftir alþýðulistakonuna Elísabetu Geirmundsdóttur frá Akureyri, sem nefnd hefur verið Listakonan í Fjörunni.

Stjórnandi kórsins er Jóhann Baldvinsson.

Allir eru velkomnir – aðgangur á tónleikana er ókeypis.

Fréttatilkynning