Kveðja frá leikskólanum í Stykkishólmi

nunnuruÞann 8. október sl. lést í Belgíu Systir Lovísa fyrrum leikskólastjóri í leikskóla St. Franciskussystra. Hún var á 82 aldursári er hún lést.
Systir Lovísa var leikskóla-stjóri frá árinu 1969 til ársins 1997 eða í tæp 30 ár. Hún kom því að uppeldi margra Hólmara um árabil ásamt því að vinna á sumardvalarheimilinu. Systir Lovísa hafði gaman af því þegar „börnin“ hennar komu og heilsuðu upp á hana.
Ég kynntist Systir Lovísu þegar ég kom í Stykkishólm til þess að taka við stöðu leikskólastjóra 1997. Þá var Stykkishólmsbær búinn að taka við öllum rekstri leikskólans og systir Lovísa tilbúin að hætta og fara að sinna öðrum hugðarefnum sínum. Systir Lovísa tók vel á móti mér og okkur varð vel til vina, við áttum sama afmælisdag og þótti það mjög skemmtileg tilviljun. Hún kom oft til okkar í leikskólann og fylgdist með starfinu og börnunum. Systir Lovísu þótt vænt um börnin og starfsfólkið og hennar nánasta samstarfsfólk var henni mikils virði í gegnum árin.
Eftir að hún hætti að vinna snéri Systir Lovísa sér mikið að handavinnu og hannyrðum. Hún málaði á dúka og bjó til tækifæriskort sem hún bæði gaf og seldi fyrir regluna. Þessi kort voru mjög falleg og kom í ljós hvað Systir Lovísa var listræn og nýtin á ýmiskonar efni við kortagerðina.
Systir Lovísa átti við vanheilsu að stríða seinustu árin hennar hér í Stykkishólmi og fór hún alfarin til Belgíu árið 2002. Við héldum sambandi við Systur Lovísu í gegnum árin með bréfaskriftum og jólakortum.
Við fyrrum samstarfskonur í leikskólanum þökkum henni samfylgdina í Stykkishólmi og biðjum guð að blessa minningu Systir Lovísu.
f.h. starfsfólks leikskólans, Sigrún Þórsteinsdóttir