Kveðja og þakkir

UntitledVið hér í Stykkishólmi erum svo heppin að eiga þetta líka flotta kvenfélag sem hefur svo sannarlega látið gott af sér leiða á ýmsan hátt. Við í Ásbyrgi fengum nýverið 50 þúsund krónur í gjöf frá þeim sem ætlað var til kaupa á skipulagskössum. Kæru konur hafið bestu þakkir fyrir. Þessir kassar hjálpa okkur til að halda utan um ýmis verkefni.
Þar sem ég er nú byrjuð að skrifa pistil langar mig að nota þetta tækifæri til að upplýsa ykkur um stöðuna í Ásbyrgi. Starfsemin í Ásbyrgi tók til starfa þann 27. ágúst 2012. Þannig að það styttist í að við fögnum fjögurra ára afmæli.
Við byrjuðum 5 starfsmenn þar af 3 með skerta starfsgetu. Síðan hefur margt breyst, við höfum vaxið og þróast nokkuð hratt. Í dag eru 12 starfsmenn þar af 8 með skerta starfsgetu og ein umsókn liggur fyrir. Það er því deginum ljósara að það er orðið frekar þröngt um okkur.
Ég hef heyrt því fleygt að það sé svo mikið draslið í Ásbyrgi að ekki sjáist lengur út um gluggana. Það er nú mikið til í þessu en allt eru þetta nú verðmæti sem við erum að vinna úr. Það að hafa vinnu og hlutverk í lífinu er mikils virði fyrir alla.
Það eykur lífsgæði einstaklingsins og um leið fjölskyldu hans í heild sinni. Ef við hefðum stærra hús-næði gætum við auðveldlega virkjað fleiri til aukinnar þátttöku í lífinu. Fyrir utan það að vinnuaðstaðan væri boðlegri öllum sem þar starfa í dag. Í Ásbyrgi hefur enginn starfsmaður prívat rými eða skáp fyrir sitt dót. Oftar en einu sinni hefur minn utanyfirfatnaður týnst en komið í leitirnar eftir einhvern tíma og þá hefur hann óvart farið heim með öðrum starfsmanni.
Á þessum fjórum árum höfum við náð að eignast öfluga stuðningsmenn í bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Fyrir það erum við mjög þakklát, án ykkar værum við ekki eins öflug og við erum í dag.
Nú 1.júlí förum við í sumarfrí til 8.ágúst.
Hlökkum til að starfa með ykkur að fríi loknu.

Með sumarkveðju,
Hanna Jónsdóttir