#Kvennastarf

Iðn- og verkmenntaskólar landsins hafa í samvinnu við Samtök iðnaðarins, hrundið af stað herferð sem ber nafnið #kvennastarf. Með #kvennastarf er ætlunin að brjóta niður úreltar hugmyndir og benda ungu kynslóðinni á að fyrir bæði kynin eru allar leiðir færar í námi og starfi. Tilgangurinn er m.a. að vekja athygli á fjölbreyttum störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum og benda á þann kynjamun sem hefur viðgengist í sumum starfsstéttum. Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi er einn af samstarfsaðilum herferðarinnar. Í FVA er boðið uppá nám í rafvirkjun, vélvirkjun, húsasmíði og húsgagnasmíði og eru 146 nemendur skráðir í verknámi hjá okkur á vorönn 2017, þar af eru 84 nemendur í dagskóla. Kvöld- og helgarnámið í vélvirkjun og húsasmíði hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og færri komist að en vilja. Þeir sem vilja kynna sér námsframboð skólans eru velkomnir á opið hús þann 27. febrúar næstkomandi á milli kl. 17:00 og 19:00, einnig má finna allar upplýsingar á heimasíðu skólans www.fva.is.