L-listinn í framboð

Framboðslisti L-lista Samtaka félagshyggjufólks í Stykkishólmi

1. Lárus Ástmar Hannesson, grunnskólakennari
2. Ragnar Már Ragnarsson, byggingafræðingur
3. Magda Kulinska, matreiðslumaður
4. Ingveldur Eyþórsdóttir, félagsráðgjafi
5. Steindór H Þorsteinsson, rafvirki
6. Herdís Teitsdóttir, aðstoðar hótelsstjóri
7. Jón Einar Jónsson, líffræðingur
8. Guðrún Erna Magnúsdóttir, kennari/atvinnurekandi
9. Baldur Þorleifsson, húsasmíðameistari
10. Sigríður Sóldal, stuðningsfulltrúi
11. Alex Páll Ólafsson, stýrimaður
12. Helga Guðmundsdóttir, fiskvinnslukona
13. Guðmundur Lárusson, fv. skipstjóri
14. Dagbjört Höskuldsdóttir, fv. kaupmaður

Hér birtum við L-listafólk okkar lista sem verður til framboðs fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 26. maí 2018. Því miður var ekki grundvöllur fyrir persónukjöri líkt og við höfðum vonast til og bjóðum við því fram lista í fjórða sinn. L-listinn er og hefur verið mjög ábyrgt og málefnalegt bæjarmálafélag sem hefur haft á að skipa góðum frambjóðendum. Bæjarfulltrúar L-listans hafa jafnan verið málefnalegir og barist hart gegn óskynsamlegum ákvörðunum og vondum vinnubrögðum. Okkar bæjarfulltrúar voru í meirihluta árin 2010-2014 og stóðu sig mjög vel við erfiðar aðstæður. Þessi listi sem við bjóðum fram til kosninganna í vor einkennist af reynslu og breiðri skírskotun inní málaflokkana með góða tengingu við atvinnulífið. Nú er ljóst að þrír listar bjóða fram í vor. Það er jákvætt og er það okkar stefna að leggja okkar af mörkum þannig að öll framboðin vinni saman eftir kosningarnar og ekki verði um eiginlega meirihluta eða minnihluta að ræða heldur byggist starfið á virðingu, samstarfi og lýðræði.

Verkefnin eru stór og mikilvægt að reynsla sé til staðar innan bæjarstjórnarinnar. Koma verður málefnum öldrunarþjónustunnar í endanlegan farveg. Skólalóðina verður að gera aðlaðandi og nothæfa. Mikið viðhald er komið á sundlaugina og íþróttahúsið sem ekki getur beðið auk þess sem bæjarstjórn þarf að taka ákvörðun um hvaða not bæjarbúar vilja hafa af gamla Bíóhúsinu en þar teljum við áhugavert að gera aðstöðu sem við Hólmarar getum nýtt í ýmis verkefni. Bæjarstjórnarfundi þarf að taka upp og senda út, einnig þarf að opna bókhald bæjarins. Auk þess þarf að meta hvort ekki sé rétt að skipta starfsemi Stykkishólms í þrjú svið sem verði Fjármála- og stjórnsýslusvið, Velferðarsvið og Framkvæmda- og skipulagssvið en ekki vera með ótal nefndir sem eru mis virkar.

Það liggur fyrir að fjárhagsstaða bæjarins hefur versnað og skuldir aukist. Það er því mikilvægt að bæjarstjórn beri gæfu til að endurskoða rekstur bæjarins með það að markmiði að ná niður kostnaði auk þess að finna leiðir til að auka tekjur.
Um þetta og margt fleira verður væntanlega fjallað á næstu vikum í bæjarmálaumræðunni og á væntanlegum opnum framboðsfundi.

Stjórn L-listans