Læsi

Samtökin Heimili og skóli hafa gefið út sinn læsissáttmála með sex lestrarboðorðum:

 

  1. Lesum fyrir barnið og verum fyrirmyndir
  2. Hlustum á barnið lesa
  3. Viðhöldum og eflum færni
  4. Höfum lesefni aðgengilegt og bjóðum val
  5. Leitum hjálpar
  6. Lesum á eigin tungumáli

 

Gerið lestrarstund að jákvæðri upplifun og hafið fastan lestrartíma á hverjum degi. Syngið með barninu, lesið fjölbreytt efni og misflókið.

Ræðið um söguna og lesturinn við barnið, spáið fyrir um framhaldið og veltið upp erfiðum orðum.

Sýnið lestri barnsins áhuga og hlustið á það lesa, skiptist á að lesa ef textinn reynist erfiður, fáið börn til að lesa í fríum og takið bækur með í ferðalög, notist við hljóðbækur í bílnum, á kvöldin og við fleiri tækifæri.

Líklegra er að barn lesi ef það hefur eitthvað skemmtilegt að lesa. Hægt er að útvega bækur í gegnum netið, gaman er að fara saman á bókasafnið og ef barn ræður ekki sjálft við texta er tilvalið að fá hljóðbækur að láni. Ef lestrarefnið vekur athygli og áhuga barna eykur það hvatann til að lesa.

Mikilvægt er að foreldrar tvítyngdra barna lesi fyrir barnið bæði á móðurmáli sínu og íslensku og að barnið sjálft lesi á báðum tungumálum.

Nánari upplýsingar um efnið má nálgast á heimasíðu samtakanna: http://www.heimiliogskoli.is/laesissattmali/

Læsisteymi Grunnskólans í Stykkishólmi