Lambalæri að hætti Finns

Það þarf ekki alltaf að vera sósa.
Ég þakka Ágústi Jenssyni fyrir að skora á mig. En vil byrja á að leiðrétta smá miskilning hjá honum um að ég sé sósugerðar- maður. Hið rétta er að ég er mikill smekkmaður á góðar sósur og finnst sérstaklega gaman að smakka þær til.
En þar sem sumarið er framundan þá ætla ég að kveikja á grillinu og bjóða ykkur uppá grillað lambalæri með ofnbökuðu grænmeti. Þetta er einstaklega vinsælt á mínu heimili og slær alltaf í gegn.
Ég ætla svo að skora á grillmeistarann í Vesturbænum, Þorbjörn Geir Ólafsson, og treysti því að hann setji allavegana bjórinn á grillið. #bjórinnágrillið.

Hráefni
1 lambalæri, um 2,5 kg
3 – 4 hvítlauksgeirar
Ólífuolía
Grískt lambakrydd frá Pottagöldrum
Salt og pipar

Leiðbeiningar
Kveikið á grillinu og leyfið því að hitna vel á meðan þið kryddið lærið.
Stingið nokkrar stungur í lærið með hníf og stingið hvítlauksgeirunum í kjötið.
Smyrjið lærið með ólífuolíu og kryddið með Gríska lambakryddinu ásamt og salt og pipar.
Skellið lærinu á grillið og hafið á háan hita. Grillið í 10 mínútur eða þangað til búið er að brúna allar hliðar. Slökkvið þá á brennaranum sem er undir lærinu en leyfið hinum tveimur (geri ráð fyrir grilli með 3 brennurum) að vera á fullum straumi í smástund en lækkið svo þannig að hitamælirinn á grillinu sýni 160 °- 180°. Grillið í 1 klst og best er að láta grillið vera lokað allan tímann. Áður er lærið er borið fram er gott að láta það á bakka og álpappír yfir í um það bil 10 mínútur.

Ofnbakað grænmeti með rósmarín
10-12 litlar kartöflur, skornar í tvennt
1 sellerírót, afhýdd og skorin í 1,5 cm bita
1 sæt kartafla, afhýdd og skorin í 1,5 cm bita
2-3 laukar, skornir í báta
1 sítróna skorin í báta
6 hvítlauksrif, skorin í þrennt
4 msk ólífuolía
2 msk ferskt rósmarín, fínsaxað
salt og svartur pipar

Hitið ofninn í 200°C. Setjið grænmetið og sítrónubáta í stóra ofnskúffu og veltið því upp úr ólífuolíunni og rósmaríni. Saltið og piprið.
Bakið í miðjum ofninum í 50-60 mínútur. Hrærið öðru hvoru í grænmetinu á meðan.

Þó svo að það þurfi ekki alltaf að vera sósa er gott að bera fram kalda sósu með lambalærinu. Frúin galdrar sósuna fram en hún er einmitt snillingur í sósugerð og bakkar þar með upp mína veikleika.

Köld sósa
200 gr sýrður rjómi
½ hvítlaukur
½ sítróna (safinn kreistur)
væn lúka af saxaðri steinselju
piprið eftir smekk

Finnur Sigurðsson

uppskrift