Láttu Hólminn heilla þig – Hverfafundir og umhverfisátak.

Kæru Hólmarar. Þó að alltaf sé verið að segja okkur hvað bærinn okkar sé fallegur og snyrtilegur, og það er hann reyndar, þá vitum bæði þú og ég að alltaf má gera betur.

Kæru Hólmarar. Þó að alltaf sé verið að segja okkur hvað bærinn okkar sé fallegur og snyrtilegur, og það er hann reyndar, þá vitum bæði þú og ég að alltaf má gera betur.

 

Fyrir tveim sumrum voru haldnir hverfafundir fyrir hvatningu Umhverfishópsins. Þar gekk fólk um hverfið sitt og skoðaði hvað það í sameiningu gæti gert til að fegra umhverfið. Mismiklar framkvæmdir urðu í hverfunum, en áberandi var hve þátttakan var góð og áhuginn mikill fyrir ýmsu í útliti og umgengni hverfanna. Til dæmis eru ófáir sem hafa “land í fóstri” innan  bæjarmarkanna.

 

Á aðalfundi Umhverfishópsins á dögunum var ákveðið að endurtaka hverfafundina, nú í samvinnu við Stykkishólmsbæ. Bærinn hefur lýst sig reiðubúinn til að aðstoða bæjarbúa við átakið með því að leggja til vinnu og efni, ef fólkið í hverfunum vill taka til hendinni. Því er nú starfandi stýrihópur hjá Umhverfishópnum þar sem verið er að undirbúa hverfafundi miðvikudaginn 24.maí kl:19.00. Hverfin verða þau sömu og síðast. Ætlunin er að ganga saman um hverfin og skrifa hjá sér það sem fólki finnst þurfa að gera. Verkefnum yrði síðan forgangsraðað og haldinn allsherjar vinnudagur í júní með þátttöku íbúa hverfanna og bæjarstarfsmanna.

 

Góð hugmynd væri að grilla síðan saman að loknum góðum vinnudegi og þá yrði þetta enn einn hátíðisdagurinn í sumar.

 

Vonandi láta sem flestir sjá sig, því þetta er einstakt tækifæri til að hafa áhrif og hjálpast að eins og sæmir í fallegum og góðum bæ.

 

                                        Með kveðju fyrir hönd Umhverfishópsins.

                                        Brynja Reynisdóttir