Leiklistargagnrýni

Sigurður Páll skellti sér, sem sérlegur leiklistar gagnrýnandi Stykkishólms-Póstsins, á leiksýningu hjá leikfélaginu Grímni.  Það sýnir um þessar mundir Brúðkaup Toni og Tinu

[mynd]Ég brá mér í leikhús á föstudagskvöldið var, að beiðni Stykkishólms-Póstsins, sem gagnrýnandi til að sjá brúðkaup Tony og Tinu sem leikstýrt er af Ólafi Jens Sigurðssyni. Þetta er söng og gamanleikrit og sagt spunaleikur þar sem leikararnir sjálfir semja megnið af textanum út frá einhverskonar grunnhandriti. Einnig er ætlast til að áhorfendur taki þátt í sýningunni eftir því hvað leikararnir eru duglegir að draga þá fram á gólfið.
Satt best að segja finnst mér, prívat og persónulega, óþægilegt að fara í leikhús sem áhorfandi og eiga það á hættu að verða með í leikritinu fyrirvaralaust, en þetta er bara mitt vandamál og þarf alls ekki að hrjá aðra sem leikhús sækja.
Eins og heiti verksins gefur til kynna fjallar það um brúðkaup og brúðkaups-veislu, þar sem fjölskyldur, vinir og vandamenn brúðhjónanna koma við sögu.  Einnig er í veislunni hljómsveit sem að mínu mati kemst mjög vel frá sínu og gæti sómað sér á hvaða balli sem er. Leikritið sjálft er ég kannski ekki dómbær á þar sem ég var svo skelfingu lostinn um að verða dreginn út á gólf, og þó! 
Spuni er eins og nafnið gefur til kynna eitthvað sem leikið er af fingrum fram, þá væri æskilegt að leikarinn hafi bæði reynslu og sjálfsöryggi til að bera, svo áhorf-andinn geti hrifist með honum inn í verkið. Það mátti sjá marga góða takta leikurunum hér og þar í hita leiksins og verð ég að viðurkenna að það er nokkuð djörf ákvörðun að ráðast í uppsetningu á leikriti þessarar gerðar og tek ég hatt minn ofan fyrir þeim sem bera ábyrgð á því. Flestir leikararnir í verkinu eru ungir þó ekki allir því inni á milli eru gamlir reynsluboltar.
Þegar ég sá hvað leikararnir, ekki síst unga fólkið í þeim hópi, skemmti sér vel á meðan á sýningu stóð rifjuðust upp gamlir tímar hjá þeim sem þetta skrifar, því á árunum frá 1975 til 1981 var sá hinn sami vel virkur með leikdeild Skallagríms í Borgarnesi og vorum við óhrædd að setja upp allskonar leikrit og kom fyrir að fólk gekk út af sýningum þar sem því var nóg boðið.

Absúrd eða leikhús fáránleikans höfðaði mjög til okkar og settum við upp eitt slíkt í sundlauginni og annað í íþróttahúsinu þau gengu ágætlega og hneyksluðu ekki mjög marga en hrifu þeim mun fleiri. Danskt barnaleikrit með dans og söng gekk mjög vel eitt árið, einnig voru færð upp stykki sem þykja nokkuð örugg til sýninga hjá áhugaleikfélagi út á landi og gengu þau líka vel, þó verð ég að segja að í minningunni standa þau verk sem mestu áskoruninni og óvissunni fylgdi,  standa manni næst og þau þykir mér vænst um– eftir á að hyggja. Því vil ég óska öllum þeim sem að sýningu þessari standa til hamingju, ekki síst ungu leikurunum sem greinilega eru að njóta lífsins á morgni síns leikferils, það er nefnilega þannig að sá sem stigið hefur á fjalirnar í leikhúsi og lifað sig inn í heim leikgyðjunnar finnur fyrir frelsi eða svölun sem erfitt er að útskýra fyrir þeim sem ekki hafa reynt það.         
Siggi Palli
leikari, gagnrýnandi og allt