Lesendabréf

Góðir lesendur.
Þegar þessi grein birtist í Stykkishólms-Póstinum verður sýningum á söngleiknum Oliver væntanlega lokið.

Vonandi hafa sem flestir bæjarbúar séð sér fært að skella sér í leikhúsið og njóta þessa bráðskemmtilega söngleiks.
       Leikfélagið Grímnir sem á 40 ára starfsafmæli á þessu ári, hefur nú eins og svo oft áður lyft Grettistaki með þessari sýningu. Fiðlarinn sem sýndur var fyrir nokkrum árum var frábær uppsetning hjá félaginu og varla hægt að toppa þá sýningu. En það sem ekki síst vekur athygli nú er ungur aldur leikenda í  þessara uppfærslu, uppistaða leikenda er á aldrinum 11 til rúmlega 20 ára gamlir, örfáir leikendur þar eldri.
Með skólanámi, tónlistar og íþróttaþátttöku hafa þessir krakkar lagt á sig ótrúlega vinnu, svo mikla að eldra fólki hefði sennilega  þótt nóg um.
       En hvað hefur þátttaka þeirra í söngleiknum gefið þeim á móti? Í mínum huga er þar engin efi, það hefur þroskandi áhrif á krakkana, þau læra að vinna undir aga, tillitsemi við náungann verður að vera fyrir hendi, og ekki síst verða þau að vera vel skipulögð.
       Svo gaman þótti mér á frumsýningunni að ég ákvað þá þegar að sjá sýninguna aftur, ekki skemmti ég mér síður en á frumsýningunni, á sýningunni s.l. laugardag sat ég í salnum þar sem ég naut tónlistarflutningsins í botn, hvað getur maður sagt við þetta unga fólk, til hamingju – hamingju og aftur til hamingju, agaður tónlistarflutningur unga fólksins var frábær hvort sem heldur var í einsöngsatriðum eða fjöldasöngsatriðum.
       Leikfélaginu Grímni óska ég til hamingju með 40 ára afmælið, stjórn félagsins hefur sýnt okkur að allt er hægt ef vilji er fyrir hendi. Leikendum öllum, ekki síst unga fólkinu sem bar uppi sýninguna, þakka ég frábær tilþrif og góða skemmtun.
Húrra fyrir öllum sem lögðu hönd á plóginn og gerði sýninguna mögulega.

                                                                                                           Sesselja Pálsdóttir