Lestrarátak Grunnskólans í Stykkishólmi

Við Grunnskólann í Stykkishólmi hefur undanfarin misseri verið unnið að læsisstefnu skólans. Í henni er sett fram það skipulag sem við viljum hafa á lestrarkennslu í skólanum. Stefnunni verður fylgt úr hlaði með þriggja ára þróunarverkefni sem hrundið er af stað til að efla lestrarfærni og málskilning nemenda skólans.

Við Grunnskólann í Stykkishólmi hefur undanfarin misseri verið unnið að læsisstefnu skólans. Í henni er sett fram það skipulag sem við viljum hafa á lestrarkennslu í skólanum. Stefnunni verður fylgt úr hlaði með þriggja ára þróunarverkefni sem hrundið er af stað til að efla lestrarfærni og málskilning nemenda skólans. 

Að setja fram stefnu skólans í lestri eða læsi er hluti af endurskoðun skólanámskrár og þáttur í innleiðingu nýrrar Aðalnámskrár grunnskóla. Önnur ástæða þess að farið var í að skoða lestrarkennsluna er að á samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk síðustu ár hefur árangri nemenda Grunnskólans í Stykkishólmi í lestri og lesskilningi hrakað. Athugun á því hvernig lestrarkennslu og –þjálfun er háttað í skólanum og gerð stefnu og áætlunar um að efla lestrarkennsluna er tilraun til að bæta árangur nemenda.

Stefnan á fyrst og fremst að vera rammi starfsins fyrir kennarana en hún er líka ætluð foreldrum til upplýsingar enda eiga þeir að vera virkir þátttakendur í lestrarnámi barna sinna.

Markmið þessa starfs er að efla lestrarmenningu skólans og verður það gert með ýmsu móti. Fyrst og fremst með því að glæða áhuga á bókum og lestri og gefa nemendum næg tækifæri til að þjálfa sig í að lesa og njóta þess.

Læsisstefnunni verður fylgt úr hlaði með fjögurra vikna lestrarátaki sem hefst nk. mánudag. Í átakinu mun hver skóladagur hefjast á lestri þar sem allir í skólanum, jafnt ungir sem aldnir, lesa sér til ánægju í 20 mínútur. Framhaldssaga verður lesin fyrir alla sem vilja hlusta og bókakynningar verða haldnar þar sem lesið verður upp úr góðum bókum. Markmið átaksins er að efla lestrarfærni og kveikja áhuga og leiðin til þess er að lesa. Nemendur skrá niður þær mínútur sem þeir verja á degi hverjum í lestur og í lok átaksins verður haldin uppskeruhátið fyrir alla þátttakendur.

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, verður gestur okkar á mánudaginn og hann mun ræða við nemendur um skapandi skrif og bækur sínar, en þær skipta orðið tugum. Fleiri höfundaheimsóknir eru ráðgerðar í vetur en það er alltaf fróðlegt að fá sjálfan rithöfundinn í heimsókn til að segja frá bókum sínum. Við ætlum einnig bjóða upp á bókakynningar án höfunda og óskum hér eftir áhugasömu fólki til að koma í heimsókn í skólann og lesa upp úr uppáhaldsbókum og öðrum góðum bókum fyrir nemendur. Allir eru velkomnir, hvort sem þeir hafa tengsl við skólann eða ekki, og bækurnar sem lesið er upp úr mega vera fyrir allan aldur. Áhugasamir hafi samband við Önnu Margréti í netfangið anna.margret(hjá)stykk.is.

Lestrarkveðjur

Starfsfólk Grunnskólans í Stykkishólmi