Lestrarátak í Grunnskólanum í Stykkishólmi

Nú hefur lestrarátak staðið yfir í grunnskólanum í rúmar tvær vikur. Við byrjum daginn á því að lesa í 20 mínútur en þá lesa allir í skólanum, bæði nemendur og starfsmenn. Það er gaman að byrja daginn rólega og þá er mjög gott að lesa góða og skemmtilega bók. Nemendur eru ánægðir með að byrja daginn á góðum lestri og vilja helst hafa þetta alltaf svona.

Í morgunkaffinu er hefur bókin Þriðji ísbjörninn eftir Þorgrím Þráinsson verið lesin fyrir þá sem vilja. Þorgrímur kom einmitt í heimsókn í skólann og hóf lestrarátakið með okkur. Hann hitti alla nemendur skólans og fjallaði um bækurnar sínar, hvernig maður fær hugmyndir og skrifar sögur. Það var gaman að fá Þorgrím í heimsókn, hann er skemmtilegur maður á besta aldri (við vitum hvað hann er gamall í raun og veru).

Hinn mikli stuðmaður Hafþór Gunnarsson, körfuboltamaður og leikmaður Snæfells númer 9, kom í heimsókn og las upp úr bókinni DaVinci lykillinn eftir Dan Brown. Hann þurfti að byrja á 16. kafla því fyrstu kaflar sögunnar eru ekki við hæfi ungra barna. Haffi las fyrir eldri krakkana, í 5.-10. bekk, en Finnur Atli, annar leikmaður Snæfells og mjög stór, kom líka í heimsókn og las fyrir yngri nemendur skólans.

Það var gaman að fá þá í heimsókn og það kom okkur á óvart að körfuboltamenn lesi einnig bækur.

Okkar bestu lestrarhestakveðjur!

Fyrir hönd GSS,

Krakkarnir í 8. bekk