Lestrarátak í GSS

gssLestrargeta er ekki meðfæddur eiginleiki
heldur færni sem byggist upp gegnum nám og þjálfun

Stutt ágrip um mikilvægi heimila í lestrarnámi barna. Punktar frá námskeiði sem haldið var fyrir foreldra barna í 1. – 3. bekk í Grunnskólanum í Stykkishólmi.

Til að byggja traustar stoðir undir lestrarfærni barna er tæknin ekki nóg eins og sér heldur er mikilvægt að efla málþroska og málskilning barnanna. Það er m.a. gert með því að:

  • lesa fyrir börnin sögur og bækur sem innihalda litríkt mál og góðan orðaforða
  • ræða og útskýra lesefnið jöfnum höndum
  • spyrja spurninga til að athuga hversu vel börnin fylgjast með
  • biðja börnin um að giska á framhald og sögulok til að skapa eftirvæntingu og gera þau að meiri þátttakendum  í sögunni
  • halda áfram að lesa bækur fyrir börnin á meðan þau eru að ná tökum á lestrinum

 

Í grunnskólum er lestrartæknin kennd en því miður gefst ekki tími til að þjálfa þá færni í skólanum nema að litlum hluta. Heimilin gegna því lykilhlutverki í þjálfuninni. Best er að lesa sem oftast, a.m.k. 5 sinnum í viku, ca. 10 mínútur í senn. Betra er að lesa oftar og styttra en sjaldnar og lengur. Í GSS höfum við fyrir viðmið að lesa skuli texta tvisvar sinnum þar til barnið hefur náð 50 atkvæðum á mínútu. Mikilvægt er að láta umsjónarkennara vita ef aðstæður á heimili eru þannig að ekki er hægt að sinna þessu þjálfunarhlutverki.

Nokkrar reglur sem gott er að hafa í huga varðandi heimalestur:

  • Látum barnið styðja fingri undir texta
  • Ekki halda áfram nema orðið sé rétt lesið
  • Höfum athygli á lestri barnsins
  • Reynum að hafa aðstæður eins góðar og hægt er

Fyrstu lestrarárin skipta gríðarlega miklu máli fyrir áframhaldandi lestur. Skert lestrargeta getur haft hindrandi áhrif á frekara nám. Ef lesfimi er ekki orðin nokkuð góð þegar á miðstig er komið verður róðurinn þungur. Vandinn eykst og bilið milli þeirra sem geta og geta ekki hefur tilhneigingu til að breikka og erfiðleikar í námi vinda upp á sig.

Læsisteymi GSS