Listi félagshyggjufólks

Ég vil í upphafi skrifanna þakka vini mínum Rúnari Gíslasyni fyrir leiðréttingu á grein minni sem birtist í Stykkishólmspóstinum þann 16. mars sl.

Ég vil í upphafi skrifanna þakka vini mínum Rúnari Gíslasyni fyrir leiðréttingu á grein minni sem birtist í Stykkishólmspóstinum þann 16. mars sl.  Þar bendir Rúnar á að aðeins annar af þeim tveimur bæjarstjórum, sem minnst var á í greininni, þáði biðlaun er hann fór úr starfi sínu fyrr en ráðningarsamningurinn gerði ráð fyrir. Biðst ég afsökunar á þessum mistökum.

      Nú þegar listinn okkar, X-L, er fullmótaður er rétt að staldra aðeins við, líta yfir farinn veg og meta árangurinn sem náðst hefur. Þegar farið hafði verið yfir tilnefningarnar 73, og búið að hafa samband við alla, kom í ljós að 34 einstaklingar voru tilbúnir að starfa að bæjarmálum og lýstu nærri undantekningarlaust ánægju með þau vinnubrögð sem við notum við að raða á listann. Ekki sló á gleðina þegar kom að forvalsdeginum mikla þann 26. mars sl.  Ákaflega mikil gleði var meðal þeirra fjölmörgu sem að honum stóðu þegar ljóst var að undirtektir og áhugi Hólmara fyrir vinnubrögðum Félagshyggjufólksins voru framar björtustu vonum. Hvorki fleiri né nærri en 210 manns mættu í Verkalýðshúsið til að leggja sitt af mörkum við mótun listans, fengu sér kaffi og vöfflur og ræddu öll heimsins mál, þ.m.t. bæjarmálin.

     Úrslit forvalsins, þ.e. röð sjö efstu manna, voru tilkynnt um kvöldið fyrir fullu húsi á mikilli gleði sem haldin var á Fimm fiskum. Þá tók til starfa fimm manna uppstillingarnefnd sem endanlega raðaði upp listanum eftir fyrirfram ákveðnum reglum. Tekið var tillit til aldurs-dreifingar og kynjahlutfalls við þá vinnu. Svo heppilega vildi til að listinn í heild kom mjög vel út úr forvalinu m.t.t. þessara þátta og voru því breytingarnar aðallega smávægilegar tilfærslur manna á milli.  Helsta vandamálið var, ef vandamál skyldi kalla, var hversu góða útkomu kennarar fengu úr forvalinu. Tveir kennarar ákváðu að þiggja ekki sín sæti til að fá meiri breidd í listann og gera hann þannig enn sterkari og sigurstranglegri. Samt sem áður munu þeir, ásamt stórum hópi fólks sem ekki er á framboðslistanum, vinna áfram af fullum krafti fyrir hópinn. Á það bæði við um aðra þá sem voru á forvalslistanum sem og fleiri sem hafa starfað með hópnum. Eins og gefur að skilja var mun fleira fólk, en það sem er á framboðslistanum, tilbúið að taka sæti þar. Segja kunnugir að þvílíkar aðstæður séu fátíðar fyrir sveitarstjórnar-kosningar og er það í samræmi við fréttaumfjöllun í fjölmiðlum þessa dagana. Því og fremur er þessi staða L-listans afar ánægjuleg og væntum við mikils af því sterka baklandi sem fólkið, sem stendur utan við listann, myndar. Þeir sem biðu spenntir eftir því að samstarfið springi við frágang listans vegna “pólitískra flokkadrátta” urðu fyrir miklum vonbrigðum því skýrlega kom í ljós að þess háttar skoðanir þrífast ekki innan hópsins. Þvert á móti þá má segja að hann styrkist með hverjum deginum og hlakkar hópurinn í heild til áframhaldsins, bæði listafólk og baklandsfólk. Við erum tilbúin til starfa, fyrir alla bæjarbúa!

      Mig langar að lokum að þakka fyrir þann mikla stuðning sem ég hlaut í forvalinu og vona að ég, með ykkar hjálp, standi undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar.  Þótt tölunni “einum” sé klínt framan við mitt nafn, þá er það hópurinn sem vinnur sigrana og hefur gert fram til þessa. Höldum áfram að vinna öll saman, á lýðræðislegum grunni.

                    
                              Bestu kveðjur

                              Lárus Ástmar Hannesson