Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands

Alla miðvikudaga í september mun Ferðafélag Íslands standa fyrir lýðheilsugöngum um allt land. Göngurnar eru hluti af afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar hefjast kl. 18:00 alla miðvikudaga vítt og breitt um landið og er fyrsta gangan 6. september. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem taka  u.þ.b. 60-90 mín. Tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Allar upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir má finna á heimasíðu verkefnisins www.fi.is/lydheilsa. Þar gefst almenningi einnig kostur á að skrá sig í lukkupott sem dregið verður úr í október og geta heppnir göngugarpar hreppt glæsilega vinninga.

Bæklingi er jafnframt dreift inn á öll heimili í landinu auk þess sem hægt er að finna verkefnið á Facebook undir „Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands“.

Valitor og VÍS koma að verkefninu með Ferðafélagi Íslands auk þess sem Velferðarráðuneytið og Embætti landlæknis eru faglegir samstarfsaðilar.

Reimið á ykkur gönguskóna, komið út að ganga á miðvikudögum í september og njótum náttúrunnar í sameiningu. Þátttaka er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

LIFUM OG NJÓTUM!