Miðvikudagur , 19. desember 2018

Má bjóða ykkur slys á fólki?

Í vor komu börnin heim með gæsaregg og tókst að unga því út. Farin var námsferð í Landey að læra um eggjatöku. Tókst sá lærdómur þannig, að grágæsarungi óx úr grasi í garðinum okkar, okkur og fleirum til ánægju.

Í vor komu börnin heim með gæsaregg og tókst að unga því út. Farin var námsferð í Landey að læra um eggjatöku. Tókst sá lærdómur þannig, að grágæsarungi óx úr grasi í garðinum okkar, okkur og fleirum til ánægju.

En að morgni dags 13. ágúst hafði gæsin orðið fyrir bíl á Silfurgötu. Fuglinn varð að pönnuköku með opið kviðarhol, á götu þar sem er 35 km/klst hámarkshraði. Hraðamörk gilda allan sólarhringinn en ekki bara á daginn, en hraðakstur kvölds og nætur virðist vera sérstakt sport hjá sumum. Að degi til vék gæsin sér léttilega undan bílum, sem ekið var á löglegum hraða. Börnin á heimilinu upplifðu sáran missi og það fauk ansi vel í okkur hin fullorðnu. 

Örlög gæsarinnar leiða óneitanlega hugann að gömlu vandamáli, sem fólk hefur áður reynt að ýta til úrbóta. Í fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar (http://www.stykkisholmur.is/Files/Skra_0061249.pdf) þann 22. apríl 2013, má lesa eftirfarandi:

“Umferðarmál í Stykkishólmi, bréf til umsagnar. Lagt fram bréf dags. 11.03.2013

frá Hermundi Pálssyni formanni skipulags – og bygginganefndar og Ólafi Guðmundssyni yfirlögregluþjóni , um tillögur í umferðarmálum. Bréfi vísað af bæjarráði til skipulags og bygginganefndar. Nefndin tekur jákvætt í tillögur og telur brýnt að hefja úrbætur sem fyrst.”

Ekki er tekið fram þarna, um hvaða tillögur er verið að ræða. Við reyndum síðast að ræða hraðakstur við bæjarstjórnina og lögregluna árið 2010, vegna mikils umferðarþunga og tíðs hraðaksturs við Silfurgötu. Þeir sem hafa búið þarna lengur hafa áður reynt að fá úrbætur, en “aldrei var hlustað á fólkið”. Þó var fyrir tilstuðlan lögreglu settur var upp umferðarriti sumarið 2009, sem sýndi að fjórði hver bíll (af rúmlega 700 ferðum á sólarhring) ók yfir 35 km hámarkshraða. Bæjarfulltrúar sem tjáðu sig um niðurstöðurnar sögðu heldur fátt. 

Hraðahindranir þóttu ómögulegar því þær ku skapa svo mikinn hávaða – en reyndar er nóg af honum á Silfurgötu allan tíma sólarhrings, vegna stöðugs flandurs vörubíla og vinnuvéla. Enn sitja íbúar við Silfurgötu, og víðar í bænum, undir hraðakstri alls kyns ökutækja. Nú í sumar var lögð laus malarklæðning á Silfurgötu. Flestir vita að slíkar aðstæður krefjast hægari aksturs og meiri aðgæslu. en ekki höfðu allir ökumenn það í sér og uppskáru þeir steinkast.

Við höfum jafnan rétt á því og aðrir að settar verði upp hraðahindranir á Silfurgötu eða hvar sem þeirra er þörf, til að koma í veg fyrir fautaakstur. Hingað koma líka þúsundir gesta árlega. Líkt og við eru þeir eru ekki höttunum eftir slysum á fólki. Slys á fólki væru varla góð auglýsing fyrir fagra Stykkishólm, eða hvað?

Jón Einar Jónsson og Sigurbjörg Henrysdóttir, Silfurgötu 24