Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Málefnafundur félagshyggjuframboðsins um menntamál

Sælt veri fólkið!
Fræðslumálin voru til umræðu á málefnafundi félagshyggjuframboðsins sl. laugardag. Mæting var allgóð, þrátt fyrir tíðindasama helgi í Hólminum. Umræður voru fjörugar og bar mönnum saman um að uppbygging einstaklingsins í síbreytilegum heimi væri sú glíma, sem hvað harðast yrði að sækja í skólunum. Í þeirri sókn þurfa sterk sameiginleg sýn og siðfræðileg gildi að vera til grundvallar öllu starfi, í góðu samstarfi við skólana í nágrannabyggðunum. Markvissar fjárfestingar í skólamálum eru sú kjölfesta, sem gerir Stykkishólmsbæ samkeppnisfæran um fólk og tækifæri, í bráð og lengd. Skólarnir séu nútímavinnustaðir fyrir nemendur og starfsmenn og skólanefndir starfi af faglegum metnaði og veiti nauðsynlegt aðhald og stuðning. Þær styðji sérstaklega við alla viðleitni stjórnenda til enn frekari samvinnu skólanna og samnýtingar á sérfræðiþekkingu og húsnæði.

Leikskólabyggingunni þarf að ljúka og sjá til þess að starfið á nýjum stað hefjist á jákvæðum og ljúfum nótum, í hvívetna. Þá voru uppi sterkar raddir um gjaldfrjálst elsta ár leikskólans og spurningarmerki sett við há leikskólagjöld. 

Viðbygging við grunnskólann var mjög ofarlega í huga margra fundargesta og mötuneytismál og niðurgreiðslur á skólamáltíðum bar líka á góma. Einnig þótti brýnt að marka ákveðna stefnu um að yngri deildir grunnskólans flyttust að Borgarbraut, eins fljótt og auðið væri og ekki seinna en haustið 2007.

Fjölbrautaskóla Snæfellinga mat fólk mikils og vildi styðja og styrkja með ráðum og dáð, einkum og ekki síst, með því að skapa samfellu í náminu með því að stefna opinberlega og markvisst að því að nemendur grunnskólans komi þangað, sem allra best undirbúnir til náms, þjálfuð í þeim óhefðbundnu vinnubrögðum sem FSn byggir á. Talsverð umræða varð einnig um iðnnám og tengsl þess við atvinnulífið.

Umræður um málefni tónlistarskólans snerust helst um að stefna ákveðið undir sama þak og grunnskólinn. Biðlisti fólks, sem vill í tónlistarnám, en kemst ekki að, er drjúglangur við skólann og ljóst að þar eru sóknarfæri, sem kanna þarf gaumgæfilega. Einnig þarf að huga að nýsköpunarþætti tónlistanna og hliðargreinum þeirra.

Eins og lesendur sjá, var margt rætt og vöngum talsvert velt um þessi víðfeðmu og mikilvægu mál. Þar sem rúmur helmingur skatttekna bæjarins fer til málaflokksins, var bent á það, að gera bæri mikla kröfu um hámarksnýtingu þess fjár. Það má því öllum ljóst vera að félagshyggjuframboðið hefur mikið kjöt á beinunum til þess að vinna inn á stefnuskrá sína, því ekki er fulllokið upptalningu úr umræðuposanum. Að lokum vil ég þakka fundarmönnum öllum góðan fund.

Hreinn Þorkelsson félagshyggjumaður.