Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Málefni Amtsbókasafnsins

Að gefnu tilefni vil ég koma á framfæri nokkrum upplýsingum um málefni Amtsbókasafnsins sem hafa verið til umfjöllunar hér á síðum Stykkishólmspóstsins undanfarið.

Að gefnu tilefni vil ég koma á framfæri nokkrum upplýsingum um málefni Amtsbókasafnsins sem hafa verið til umfjöllunar hér á síðum Stykkishólmspóstsins undanfarið.
Það hafa verið uppi ýmsar skoðanir um húsnæðismál safnsins og framtíðarhlutverk þess. Þær skoðanir virðast mér grundvallast á tvennu: Í fyrsta lagi að safnið er gömul stofnun og merkileg sem slík, hluti safnkostsins er mjög gamall og sumt af honum mætti flokka sem fágæti. Í öðru lagi vill fólk búa þannig að safninu að það geti sinnt hlutverki sínu sem nútímalegt bókasafn, upplýsinga-veita, mennta- og menningarmiðstöð eða hvaða heiti menn vilja gefa þessu framtíðarhlutverki bókasafnsins.
Ég ætla ekki hér að viðra hugmyndir mínar um þessi atriði, enda efni í aðra grein, en aðeins að taka það fram að ég er þess fullviss að þeir sem hafa fjallað um málefni safnsins, bæði í bæjarstjórn og á síðum Stykkishólmspóstsins, bera hag safnsins fyrir brjósti og vilja veg þess sem mestan. Hins vegar greinir menn oft á um leiðir og áfanga að settu marki sem eðlilegt er.
Mig langar hins vegar til að bregðast við nokkrum atriðum í grein Ægis Jóhannssonar frá því í síðustu viku, einkum því sem missagt er í greininni. Um margt erum við Ægir hins vegar sammála.
Nú eru ákveðin tímamót í sögu safnsins þegar það verður opnað á Hafnargötu 7. Ég nota húsnúmerið því ég kæri mig ekki um að nota þau ónefni sem margir hafa grafið upp sem heiti á þessu húsi og get ekki fallist á að kalla það „hrakhóla“ heldur.
Að setja safnið upp í þessu húsi var hugsað sem bráðabirgða-ráðstöfun þangað til ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarhúsnæðið og framkvæmdum við það lokið. Hvernig það húsnæði verður, hvar í bænum og hvenær það verður reist er ákvörðun sem að hluta til verður tekin í vetur.
Það gætir nokkurs misskilnings hjá Ægi þegar hann fjallar um tengsl bókasafnsins og væntanlegrar viðbyggingar við skólann. Fyrir ári var samþykkt í bæjarstjórn að stefna að því að byggja við skólann á Borgarbraut þannig að allt starf grunnskólans og tónlistarskólans yrði á einum stað (sjá: skýrslu um húsnæðismál grunn- og tónlistarskóla á vef Stykkishólmsbæjar).
Í febrúar var svo samþykkt erindisbréf fyrir nefnd sem skyldi stýra umræðum og vinnu vegna undirbúnings þessarar framkvæmdar. Erindi nefndarinnar snýr fyrst og fremst að skólamálunum en jafnframt var henni gert að skoða hvort æskilegt væri að fleiri stofnanir eða starfsemi bæjarins ættu að vera í væntanlegum nýbyggingum við skólann.
Í vor var svo ákveðið að notast við vinnuferli sem hefur víða gefist vel við hugmyndavinnu fyrir skólabyggingar og skipulag skólastarfs og ég ætla ekki að lýsa sérstaklega hér. Að þeirri vinnu kemur fjölmennur hópur bæjarbúa og þar á meðal undirritaður sem fulltrúi safna- og menningar-málanefndar í stað forstöðumanns bókasafnsins þar sem ekki hafði verið gengið frá ráðningu í það starf fyrr en nú nýlega.
Safna- og menningarmálanefnd hefur í haust fjallað um húsnæðismál bókasafnsins á þremur fundum í tengslum við starf stóra vinnuhópsins um skólabyggingar, 24. okt., 7. nóv. og 5. des. Nefndin ræddi ítarlega kosti og galla þess að byggja safnið við skólann annars vegar og hins vegar að byggt væri yfir það annars staðar í bænum. Engin formleg ályktun eða niðurstaða hefur verið samþykkt í nefndinni um þetta mál en þau atriði sem komu fram í umræðum nefndarinnar (langur listi minnispunkta) fylgdi síðustu fundargerð sem var fjallað um í bæjarráði 7. desember. Einnig voru umræður nefndarinnar kynntar rækilega fyrir stóra vinnuhópnum á fundi 29. nóvember. Þannig að það er alrangt að Amtsbókasafnið eigi sér „enga ótvíræða málsvara“ í umræðum um skólabyggingar og safnamál í tengslum við þær. Þvert á móti held ég að umræður í safnanefndinni hafi komist mjög vel til skila á þann fund.
Það er hins vegar ekki hlutverk þessa vinnuhóps að taka ákvarðanir heldur á hann að draga saman sem flest sjónarmið þannig að þeir sem á endanum taka ákvarðanirnar séu vel upplýstir um hver þau eru.
Safna- og menningarmálanefnd er vel ljóst mikilvægi gagna í vörslu safnsins, s.s. skjala, gamalla prentgripa og Ljósmyndasafnsins og ég leyfi mér að gera ráð fyrir því að bæjarstjórn sé það líka. Enginn starfsmaður hefur sinnt Ljósmyndasafninu síðan í maí en það mun væntanlega breytast á næstunni. Á Hafnargötunni fær Ljósmyndasafnið aðstöðu sem verður ekki síðri en sú sem það hefur búið við og þessa dagana er verið að undirbúa hvernig staðið verður að starfsmannamálum þess.
Á síðasta fundi Safna- og menningarmálanefndar (7. des.) var rætt um stefnumörkun í safnamálum og hlutverk nefndarinnar í þeim efnum. Það er mikilvægt að horfa eins langt fram í tímann og hægt er og forgangsraða þeim verkefnum sem við viljum taka að okkur. Af nýjum verkefnum ætti héraðs-skjalasafn að vera fremst á listanum enda hefur það staðið upp á okkur lengi að bæta úr því, eins og Ægir bendir réttilega á.
Ég hef  trú á því að sú mikla umræða um safnamál og hræringar í þeim efnum undan-farin misseri verði til þess að skriður komist á málefni skjalasafnsins þannig að úr þeim rætist fljótlega. Þannig verða vonandi til ný tækifæri í öllu þessu umróti.
Þvert á það sem Ægir heldur fram hafa málefni Amtsbókasafnsins verið í réttum farvegi innan bæjarkerfisins og þar er líka verið að vinna að framtíðarmálum safnsins. Kannski hefur skort á upplýsingamiðlunina um það sem er í gangi en úr því má auðveldlega bæta.
Að lokum vil ég bjóða Ragnheiði Óladóttur velkomna til starfa við Amtsbókasafnið en hún hóf störf þann 11. desember síðastliðinn. Hún og Marc eru nú í óðaönn að koma safninu fyrir og það verður svo opnað á nýjum stað þriðjudaginn 19. desember.

                                                                                Eyþór Benediktsson
                                                                                formaður Safna- og menningarmálanefndar.