Merkingar æðarfugla á Breiðafirði

Við hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi hefjum brátt okkar fimmta merkingasumar í Breiðafjarðareyjum. Verkefnið hefur stækkað með ári hverju og er samstarf með erlendum vísindamönnum alltaf að aukast. Við höfum átt gott samstarf við æðarbændur og einn þeirra hefur sjálfur byrjað merkingar í sínu varpi.
Alls hafa verið merktar 684 æðarkollur og 2 æðarblikar. Þeir æðarfuglar sem við merkjum fá fótmerki með sérstökum lit í hverri eyju og nokkrir að auki merktir með senditækjum sem segja okkur gróflega hvar fuglarnir verja vetrinum. Æðarfuglarnir sem við merkjum í Landey halda sig á vestanverðu landinu. Frumniðurstöður 2016-2017 sýndu fuglana við Vestfirði á haustin en í Faxaflóa í nóvember til janúar.
Merkingareyjarnar okkar voru 12 á fyrsta ári en eru núna orðnar 28 talsins. Með því að ná merktum fuglum árlega á hreiðri er hægt að sjá hvort fuglarnir velji ný hreiðurstæði innan sömu eyja eða færi sig í aðra eyju milli ára. Sumar æðarkollur halda tryggð við sitt hreiðurstæði og dæmi eru um að æðarkollur hafi verpt 4 ár í röð í sömu hreiðurstæði. Aðrar kollur virðast færa sig allt að 100 metra frá hreiðri fyrra árs. Ein lengsta færsla milli ára er frá æðarkollu sem upphaflega var merkt á hreiðri í Elliðaey árið 2015 en náðist á hreiðri í Stakksey við Stykkishólm 2017 en bein loftlína milli hreiðurstæðanna er 8 km.
Nú í sumar munu ásamt tveimur fastráðnum starfsmönnum Rannsóknasetursins koma tveir sumarstarfsmenn til að aðstoða við merkingar.

Við viljum minna á að ef þið sjáið merkta æðarfugla og náið að lesa merkið þá endilega koma þeim upplýsingum til okkar. Eins ef þið finnið æðarfugla dauða að tilkynna okkur það.
Einnig minnum við sjómenn að skila til okkar merktum fuglum en gott samstarf hefur verið við þá í gegnum árin.
Upplýsingum er hægt að koma til okkar í síma 8652687 (Árni) eða 8472436 (Jón Einar) eða í gegnum tölvupóst ara17@hi.is eða joneinar@hi.is.
Loks bendum við á að hægt er að sjá á heimasíðu SEATRACK (http://seatrack.seapop.no/map/) upplýsingar um farleiðir 11 sjófuglategunda.

 

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi