Miðbær Stykkishólms

Hér verður fjallað í stuttu máli um skipulagsmál í miðbænum og þær breytingar á deiliskipulagi sem kynntar voru á opnum fundi í september og auglýstar í desember síðastliðnum.

Við Hólmarar erum stoltir af miðbænum okkar þar sem þyrpingar gamalla húsa, ásamt einstöku bæjarstæði frá náttúrunnar hendi, móta þá sérstæðu bæjarmynd sem er einkennandi fyrir Stykkishólm. Grunninn að húsvernd í Stykkishólmi má rekja til húsakönnunar Harðar Ágústssonar frá árinu 1978 og áhuga bæjaryfirvalda á málefninu. Í húsakönnuninni er lögð áhersla á að varðveita gömlu húsin en jafnframt er hvatt til bygginga nýrra húsa í miðbænum sem taki tillit til gömlu húsanna.

Í gildandi aðalskipulagi Stykkishólms frá 2002 er lögð rík áhersla á að varðveita bæjarmyndina og menningararfinn sem felst í gömlu húsunum. Einnig er í skipulaginu hvatt til frekari nýtingar og uppbyggingar í gamla bænum sem er í samræmi við áherslur húsakönnunarinnar frá 1978.

Meginmarkmið deiliskipulags fyrir miðbæ Stykkishólms frá árinu 2003 eru að vernda byggingararfleifðina, styrkja bæjarmyndina og skýra þá möguleika sem eru til uppbyggingar. Til að ná þessum markmiðum eru byggingarreitir skilgreindir í eyður húsaraða í bænum og byggingarheimildir þar þröngt sniðnar fyrir hverja byggingu. Umfang, form og efnisval nýrra húsa er skilgreint þannig að það falli vel að gömlu byggðinni.

Þær breytingar á deiliskipulagi miðbæjarins sem nú hafa verið auglýstar byggja á ofangreindum grunnhugmyndum um þróun miðbæjarins. Þörfin fyrir uppbyggingu getur breyst með tímanum og því er eðlilegt að gera þurfi breytingar á gildandi deiliskipulagi til að skapa svigrúm til framkvæmda. Það er þó mikilvægt að breytingarnar byggi áfram á þeirri stefnu sem mótuð er í aðal- og deiliskipulagi.

Í fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagsbreytingu er lagt til að núverandi bygging við Hafnargötu 7 verði fjarlægð. Um er að ræða steinsteypta vöruskemmu með hefðbundnu formi sem byggð var um 1970. Stærð og form skemmunnar fellur illa að hlutföllum þeirra gömlu og varðveisluverðu húsa sem hún stendur við og þess vegna er hún framandi í bæjarmyndinni. Byggingarefni og frágangur skemmunnar er sömuleiðis á skjön við fínleika gömlu húsanna í miðbænum. Skemman var byggð á þeim tíma þegar almennt var ekki borin virðing fyrir þeim húsum sem við teljum varðveisluverð í dag.

Með deiliskipulagsbreytingunni mun bílastæðum í gamla bænum fjölga og ættu þau að uppfylla þörfina við flest tilfelli. Þó verður að hafa í huga að bílar og bílastæði eru framandi í bæjarmyndinni sem verið er að varðveita þannig að varhugavert er að fjölga þeim um of.

Fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagsbreytingu gerir ekki ráð fyrir að Lionshúsið verði fjarlægt enda fellur stærð og umfang þess ekki illa að byggðinni. Þó hvíla engin verndunarákvæði á húsinu þannig að endurgerð eða niðurrif og bygging nýs húss af sömu stærð er heimil.

Okkur Hólmurum þykir vænt um miðbæinn okkar og því er eðlilegt að skiptar skoðanir séu á öllum breytingum sem snúa að honum. Bæjaryfirvöld og bæjarbúar leggja metnað í að standa vel að skipulagsmálum og þess má geta að fyrir það fékk Stykkishólmsbær skipulagsverðlaunin árið 2008. Mikilvægt er að fylgja áfram þeirri stefnu sem kemur fram í aðal- og deiliskipulagi og hefur verið grunnur undangenginnar skipulagsvinnu allt frá árinu 2002. Skipulagshöfundar hafa fulla trú á að nái auglýstar deiliskipulagsbreytingar fram að ganga muni þær verða til þess að styrkja bæjarmynd Stykkishólms enn frekar.

Bæring Bjarnar Jónsson, ark faí

Höfundur þessarar greinar er Hólmari og arkitekt hjá GlámuKími arkitektum sem jafnframt eru höfundar gildandi aðal- og deiliskipulags fyrir miðbæ Stykkishólms.