Minkarannsóknir kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu

Alþjóðleg ráðstefna um marðardýr var í síðustu viku haldin af WildCRU (Wildlife Conservation Research Unit) við Oxfordháskóla. Á ráðstefnunni hittust um 140 sérfræðingar víða að úr heiminum til að skiptast á þekkingu um marðardýr, en þau eru m.a. minkar, otrar og greifingjar.

Alþjóðleg ráðstefna um marðardýr var í síðustu viku haldin af WildCRU (Wildlife Conservation Research Unit) við Oxfordháskóla. Á ráðstefnunni hittust um 140 sérfræðingar víða að úr heiminum til að skiptast á þekkingu um marðardýr, en þau eru m.a. minkar, otrar og greifingjar.

 

Náttúrustofa Vesturlands kynnti fjögur rannsóknaverkefni um mink á ráðstefnunni. Í fyrsta lagi var fjallað um íslenska minkastofninn og hvernig og hvers vegna hann hefur sveiflast á síðustu 15 árum. Í öðru lagi var fjallað um niðurstöður tilraunaverkefnis umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um svæðisbundna útrýmingu minks á Snæfellsnesi og við Eyjafjörð. Í þriðja lagi var fjallað um breytingar á fæðuvali minks á Snæfellsnesi á árunum 2001-2009, sem virðast m.a. tengjast breytingum sem orðið hafa á lífríki hafsins. Í fjórða lagi var fjallað um áhrif vegfyllingar og brúar við Kolgrafafjörð á landnotkun minksins.

 

Ráðstefnan var afar vel heppnuð og komu starfsmenn Náttúrustofunnar heim á ný innblásnir af nýrri þekkingu og hugmyndum. Á ráðstefnunni voru m.a. mynduð ný tengls við erlenda fræðimenn, sem án efa koma munu Náttúrustofunni að góðum notum í framtíðinni.