Minning „Hólmara“

Í haust voru 40 ár síðan ég flutti í Stykkishólm en áður hafði ég komið með RARIK vinnuflokki nokkur sumur. Ég varð fljótt hugfanginn af Hólminum og Hólmurum enda hefur mér liðið afar vel í þessu samfélagi og vel tekið á móti mér. Það er afar notalegt að byrja daginn á aka niður Aðalgötuna og vinkast á við þá sem maður mætir. Ég hef lengi sagst vera Hólmari en vinur minn Gestur Hólm segir það alrangt. Til þess að geta sagst vera Hólmari þá þarf viðkomandi að vera fæddur hér, þannig að bráðum verður enginn sannur Hólmari í Stykkishólmi.  Mér finnst líka mikil tryggð hjá brottfluttum Hólmurum sem eru allflestir afar stoltir af fallega bænum sínum.

Eitt sem vakti strax athygli mína voru sérstök nöfn, nafngiftir og viðurnefni sen fólk hafði hér. Eins voru hér margar sérstakar og sterkar persónur.   Nöfnin Valentínus, Lárentsínus, Bæring og Amlín hafði ég aldrei heyrt áður. Bói Sellu heitir Árni en Valsi og Kolli heita báðir Guðmundur. Þá eru margir kenndir við vinnu sína eins og Ella Ljósa, Óli Sýsli, Pétur Löffi, Mæja Hár og Doddi Lögga,  Heitir þá slökkviliðsstjórinn Eyrnastór spurði vinkona mín þegar hún heyrði nafnið á löggunni.

Það voru margir frábærir og eftirminnilegir karakterar hér í denn. Höskuldur Páls gaf sér tíma til að kenna mér undir vegg á Sjávarpakkhúsinu hvað væri há-norður, Kiddó skipstjóri og aflakló kenndi mér að þekkja muniná hörðum og linum sjávarbotni á dýptarmæli á þorrablóti.  Möngubæjarfólkið, Stebbi Halldórs, Kiddi Lö, Hebbi, Palli Odds og Árni Helga voru eftirminnilegar persónur.

Það eru margar stórar ættir í Stykkishólmi og ekkert svo langt aftur í tímann eru flestir skyldir. Jakob bæjarstjóri átti til að mynda 9 ömmur á tímabili í Stykkishólmi, Hann er Hrappseyingur, Ögrari og alinn upp af Bæringum.  Stella Dönskukennari var ötul við að segja mér frá Hólminum og Hólmurum í gamla daga og væri gaman ef ég myndi það allt.

Þá voru bíósýningar í Bíóinu. Gústaf Ingvars var dyravörður og bar byssu, eins man ég eftir að bíóstjórinn Siggi Sig sýndi einu sinni endirinn á myndinni fyrir hlé og miðjuna svo síðast. Þetta þótti bara allt í lagi þá og enginn með röfl og ef maður mætti hvítum Landrover P18 þá þurfti að vera á varðbergi því Bæring á Borg mundi ekki alltaf að það var búið að skipta í hægri umferð. Og löngu eftir að gangstéttirnar komu þá löbbuðu flestir á miðri götu og það var bara allt í lagi þá.

Allir kannast við Dvaló, Tónó og Bæjó.  Spító var leikskólinn, Bensó er musteri viskunnar, Kardó var í Lágholtinu, Fíló er hús Hvítasunnumanna og Verkó er orðinn Skúrinn. Þessa Ó endingu hef ég hvergi heyrt nema í Hólminum og þar búa líka bræðurnir Stjáni og Þröstur Slító.

Mér skilst  að okkur hafi fjölgað hressilega undanfarið og Hólmarar orðnir 1200, leikskólinn sprunginn og vöntun á íbúðarhúsnæði. Það hefur mikið af ungu fólki valið að festa sér heimili hérna enda höfum við margt sem laðar annað en útlitið.  Til að áframhaldandi vöxtur geti átt sér stað þarf að skapa ný atvinnutækifæri og vona ég að okkur beri gæfa til að sjá hve mikil auðlind er í sjávargróðrinum í Breiðafirði og að við förum að nýta hann sem fyrst og þá að sjálfsögðu á sjálfbæran hátt. Hólmurinn á að verða leiðandi í nýtingu á sjávargróðri enda eru gríðarlegir sjávarakrar hér við bæjardyrnar.

Ritstjórar Stykkishólms-Póstsins hafa alltaf verið konur og hef ég alltaf átt afar góð samskipti við þær sem alltaf hafa birt fyrir mig greinar og  hjálpað mér að hrekkja samborgarana.  Núna mun þetta vera síðasti Póstur hjá Önnu Melsteð og þakka ég henni fyrir þetta famlag fyrir okkur Hólmara.

Símon Sturluson