Minningartónleikar um Hadda Sig.

Hafsteinn svartur bakgrunnur 4 (1)

Sunnudaginn 17. nóvember kl. 15:00 verður efnt til minningartónleika um Hafstein Sigurðsson tónlistarmann og tónlistarkennara sem fæddur var 14. nóvember 1945, en hann lést 1. mars 2012.

Tónleikunum, sem verða haldnir í samkomusal Hótels Stykkishólms, er ætlað að minna á þá fjölhæfni sem Haddi bjó yfir sem listamaður, bæði á sviði danshljómsveita, meðleiks og tónlistarkennslu.  Svo má reikna með að eitthvað verði rifjað upp af gamanvísum sem Haddi samdi.

Fram koma vinir, samstarfsmenn, nemendur og afkomendur Hadda og má sem dæmi nefna danshljómsveitirnar Þórsmenn, Júnó og Ísjá, nemendur og kennara úr Tónlistarskóla Stykkishólms og fleiri söngvara og hljóðfæraleikara. Gamlar myndir verða hengdar upp á veggi og geta tónleikagestir skemmt sér við að rifja upp gamlar minningar.

Aðgangseyrir verður enginn en tónleikagestum gefinn kostur á að leggja frjáls framlög í minningarsjóð sem ákveðið hefur verið að stofna í minningu Hafsteins.  Sjóðnum er ætlað að styrkja unga tónlistarnemendur til tónlistarnáms, hljóðfærakaupa, þátttöku í tónlistarnámskeiðum eða einhvers annars tengdu tónlist. Sjóðurinn verður í umsjón tónlistarskólans og verður fyrirkomulag og umsóknarferli kynnt síðar. Hægt verður að leggja framlög beint inn á reikninginn í Arionbanka, Stykkishólmsútibúi.

(Fréttatilkynning)