Nokkrir punktar frá gönguhópnum „Sjáum til“

Hópurinn er búinn að vera nokkuð duglegur við gönguferðir. Eftir að viðfórum í Dalina þá erum við búin að ganga um Þingvallaland og Borgarland, sem við gengum á sama degi. Það er alltaf reynt að ganga í hverri viku, en veðrið hefur ekki verið upp á það besta, þannig að það hafa fallið úr nokkrir dagar. Þá var gengið að eyðibýlinu Hrauni, það var ansi kalt þá. Þá var komið að göngu í kringum Ögursvatn. Síðan lá leið okkar út í Grundarfjörð, eða á Láróssanda, þar gengum við eftir mjúkri sandfjöru, tíndum þar fallegar skeljar og kuðunga. Núna á aðventunni, nánar tiltekið föstudaginn 14.des. fórum við 14 félagar í göngu um Sauraskóg sem er ómissandi þáttur á þessum árstíma. Svona ykkur að segja þá vorum við að kíkja eftir jólasveinum í framhjáhlaupi. Veðrið var mjög gott, þurrt og bjart. Ferð okkar félaganna í Sauraskóg var ekki bara farin til að finna jólasveina, við fórum til að taka hús á fólkinu sem á og rekur Hótel Stundarfrið, og fá okkur kaffi og vöfflur. Það var oft stansað á leiðinni í gegnum skóginn til þess að ræða málin og njóta útsýnisins sem er mjög fallegt. Á einni stoppustöðinni fjölgaði í hópnum, nei það var ekki jólasveinn, þá bættist í hópinn ferfætlingur, sem er hundur þeirra sem eiga Stundarfrið. Ég hélt ég væri að horfa á kvikmynd með hundinum „Lassie“ þeir eru svo sláandi líkir, og Hannes frændi minn Gunnarsson var kominn í hlutverk, hundurinn var ákaflega hrifin af honum. Þessi ágæti ferðafélagi fylgdi okkur sem leið lá að Stundarfrið þar sem hótelstýran hún Auður tók á móti okkur með bros á vör bauð okkur velkomin, og sýndi okkur hótelið, sem er ákaflega notalegt, enginn íburður en mjög smekklegt. Þarna sátum við í góðan tíma, borðuðum vöfflur og drukkum kaffi með. Það er alveg hægt að segja að þarna í kyrrðinni fari vel um gesti. Að lokum sendum við Auður göngufélögum okkar bestu jóla og nýárskveðjur. Verum dugleg að ganga á nýju ári.

Eyþór Lárentsínusson