Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Norðurljósin 2018

Menningarhátíðin Norðurljósin verður haldin í fimmta sinn í Stykkishólmi dagana 25. – 28. október. Í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands verða nokkrir viðburðir á hátíðinni því tengdir.

Opnun hátíðarinnar verður í Stykkishólmskirkju (með fyrirvara um að kirkjan verði tilbúin eftir viðgerð, annars í Tónlistarskólanum) á fimmtudagskvöldinu. Þar mun Hallveig Rúnarsdóttir söngkona og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari flytja tónlist tengda fullveldisafmælinu. Einnig taka þátt Karlakórinn Kári,  söngsveitin Blær og nemendur úr Tónlistarskólanum.

Dagskráin verður fjölbreytt að vanda. Í Vatnasafninu mun Leikfélagið Grímnir frumsýna leikverkið Blóðsystur eftir Guðmund L. Þorvaldsson og Unglingadeild Leikfélags Kópavogs, í leikstjórn Árnýjar Leifsdóttur. Undurljúfir rökkurtónleikar söngsveitarinnar Blævar verða einnig í Vatnasafninu. Bæjarbúum er boðið í heimsókn í Tónlistarskólann í tilefni hátíðarinnar og 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Í sal skólans verður söngstund þar sem hljómsveit hússins skipuð kennurum skólans leikur undir. Dagbjört Höskuldsdóttir býður til stofu þar sem Valdimar Tómasson ljóðskáld kynnir nokkrar af ljóðabókum sínum. Fólk er hvatt ef vill að mæta með uppáhaldsljóðin sín eða ljóð sem hafa haft áhrif í líf þess.

Í tilefni af 80 ára afmæli Ungmennafélagsins Snæfells verður glatt á hjalla í Íþróttahúsinu. Kvenfélagið Hringurinn verður með kaffihús. Söfnin verða opin, þar verða uppákomur og sýning í tengslum við fullveldisafmælið opnar á Amtsbókasafninu. Í tengslum við verkefnið barnamenningarhátíð á Snæfellsnesi mun Sævar Helgi Bragason betur þekktur sem Stjörnu Sævar, verða á Eldfjallasafninu með fræðslu um himingeiminn fyrir stóra og smáa. Vinnustofur verða opnar og  ljósmyndarar sýna verk sín við Sjávarpakkhúsið og í Vatnasafninu.

Þetta er smá innsýn í það sem verður á boðstólum yfir hátíðina. Dagskráin verður borin í hús og aðgengileg á facebook/Norðurljósin.  Njótum helgarinnar, fögnum vetri og höfum það reglulega gaman saman.

Nefndin