Nýárskveðja frá Skotfélagi Snæfellsness

screen-shot-2017-01-19-at-14-06-58Skotfélag Snæfellsness sendir Snæfellingum öllum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár og þakkar öllum þeim sem tóku þátt í starfsemi félagsins á einn eða annan hátt fyrir samfylgdina á árinu sem er nýliðið. Árið 2016 var eitt besta ár félagins frá upphafi með mörgum skemmtilegum viðburðum og uppákomum. Við fengum marga góða gesti í heimsókn á árinu, bæði leiðbeinendur, keppendur úr öðrum skotfélögum og fjöldi fólks mætti til að taka þátt í viðburðum eða til að kynna sér starfsemi félagsins.

Aðalfundur félagsins var að venju haldinn á vordögum og fljótlega voru haldnir nokkrir vinnudagar þar sem gerðar voru miklar endurbætur á æfingasvæðinu. Árlegt sjómannadagsmót í leirdúfuskotfimi var haldið í byrjun júní þar sem sjómenn kepptu við landsliðið. Þetta mót hefur farið stækkandi með hverju árinu og í ár var brugðið á það ráð að setja upp keppni í riffilskotfimi samhliða leirdúfuskotfiminni til að dreifa þátttakendum. Allir fengu að taka þátt í báðum greinum og voru stigin lögð saman úr báðum greinum. Eftir spennandi keppni sigraði lið sjómanna og er staðan í einvíginu nú jöfn.

Um miðjan júní fengum við til okkar leiðbeinanda í bogfimi í samstarfi við Bogveiðifélag Íslands og var öllum boðið að koma og taka þátt. Bogfimi er íþróttagrein sem hefur farið mikið vaxandi á Íslandi undanfarin ár og hafa mörg skotfélög tekið þessa grein inn í sitt félagsstarf. Við fengum frábært veður og var þetta hin mesta skemmtun.

Í sömu viku var svo komið að árlegu 17. júnímóti félagsins í riffilskotfimi. Þar var eins og alltaf keppt í tveimur flokkum sem er 22.cal á 50 metra færi og svo stærri veiðirifflum á 100 metra færi. Í þessu móti gátu keppendur valið í hvorum flokknum þeir vildu keppa eða keppt í þeim báðum.

Um mitt sumar var svo haldið sumarsólstöðukvöld þar sem skotmenn fundu til allskonar dót úr byssukápunum og hittust um kl. 22:00 um kvöldið til að skjóta saman. Markmiðið var bara að hittast og hafa gaman og skjóta saman, en oft eru bestu aðstæður til skotæfinga á æfingasvæðinu okkar einmitt seint á kvöldin því þá er oft dúnalogn. Mætingin var mjög góð og var skotið langt fram eftir nóttu.

Í ágúst var haldið konukvöld þar sem öllum konum og stelpum var boðið að mæta og reyna fyrir sér í skotfimi. Margar voru að skjóta í fyrsta skipti á meðan aðrar voru vanar. Við vorum ótrúlega ánægð með aðsóknina og áhuginn var svo mikill meðal kvenna að ákveðið var að halda sérstakt konumót í riffilskotfimi nokkrum vikum síðar og var það fyrsta konumót í sögu félagsins þar sem aðeins konum var boðið að taka þátt.

Refamót félagsins var einnig haldið í ágúst en þetta mót er mjög vinsælt meðal félagsmanna. Þá er skotið á skotmörk sem staðsett eru í ýmsum fjarlægðum sem valdar eru af handahófi. Þar reynir töluvert á þekkingu skotmanna á því skotvopni og kúlum sem skotmenn hafa í höndunum því þá þarf að reikna með falli eða risi á kúlunum því skotmörkin eru öll á mismunandi færum.

Í haust fengum við svo til okkar leiðbeinendur í leirdúfuskotfimi til að koma og leiðbeina okkar fólki. Stefnt er að því að fá aftur til okkar leiðbeinendur á þessu ári þar sem öllum verður boðið að skrá sig og fá tilsögn hvort sem menn eru vanir eða algjörir byrjendur.

Heilt á litið var þetta alveg frábært ár og vonandi verður árið 2017 jafn gott eða jafnvel ennþá betra. Á þessu ári fagnar félagið 30 ára starfsafmæli og stefnum við að því að vera með mikið af uppákomum af því tilefni. Viðburðirnir verða auglýstir með góðum fyrirvara og bjóðum við ný andlit sérstaklega velkomin. Skotfimi er ekki eins og margir halda aðeins fyrir veiðimenn heldur er þetta skemmtileg íþróttagrein sem allir geta stundað á sínum forsendum. Margir eru bara að stunda íþróttaskotfimi aðrir sækja í þetta vegna útiveru í náttúrunni og enn aðrir hafa fundið sameiginlegt fjölskyldusport.

Hægt er að fylgjast með og kynna sér starfsemi félagsins á heimasíðu félagsins www. skotgrund.123.is

Skotfélag Snæfellsness

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli