Nýbygging við Grunnskóla Stykkishólms

IMG_7277Vegna umræðu um fyrirhugaða nýbyggingu við Grunnskóla Stykkishólms vil ég fyrir hönd bæjarfulltrúa L–listans koma eftirfarandi á framfæri.

Til upprifjunar er rétt að minna á að í aðdraganda kosninganna vorið 2014 bar talsvert á milli framboðanna hvað varðar áframhald stefnu í fjármálum sveitarfélagsins. Við hjá L-listanum vildum halda áfram að lækka skuldir en þær höfðu lækkað sem hlutfall af tekjum úr 186% í 136% frá árinu 2010 til 2014. Skuldir höfðu, í kjölfar hrunsins, hækkað verulega vegna óðaverðbólgunnar og lækkunar á tekjum. Við vildum feta áfram þessa leið enda þekkjum við öll hversu dýrt það er að skulda á Íslandi og við höfðum horft á tugi milljóna fara í greiðslur á vöxtum og verðbótum á hverju ári.

Framboðslisti H–listans lagði hinsvegar áherslu á að fara þyrfti í byggingu nýs tónlistarskóla og gæti það ekki beðið og horft yrði út fyrir boxið með fjármögnun verkefnisins.
Frá því bæjarfulltrúar H-listans tilkynntu einhliða og án umræðu að byggt yrði bókasafn við grunnskólann hefur okkar áhersla verið skýr. Við höfnuðum sölu bókasafnsins og gerðum athugasemdir við margt í því samhengi. Best er til upplýsingar um það, að skoða bókanir okkar frá fundi bæjarráðs no. 524 og bæjarstjórnarfundi no. 317. sem haldinn var 26.03.2015.
Á fundi bæjarstjórnar no. 324 sem haldinn var 10.12.2015 komum við með eftirfarandi bókun þegar þessi liður framkvæmdaáætlunar var afgreiddur.

„Bókun vegna nýbyggingar fyrir Amtbókasafn. Undirrituð viljum koma eftirfarandi á framfæri. Stefna L- listans er og hefur verið að skynsamlegast sé að greiða sem mest niður skuldir bæjarins og lækka þar með afborganir og vaxtagjöld bæjarsjóðs. Þessi stefna samrýmist áherslum sérfræðinga Sambands ísl-enskra sveitarfélaga og fjármálasérfræðingum almennt. Einnig hefur verið ágæt nálgun að opinberir aðilar haldi að sér höndum á þenslu tímum og safni í sarpinn og hafi svigrúm til framkvæmda þegar saman dregst á vinnumarkaði. Á einungis fjórum árum, frá 2010 til 2014 tókst þáverandi bæjarstjórn að lækka skuldahlutfallið miðað við tekjur úr 186% niður í 136% og viljum halda áfram á þeirri vegferð. Á fundi Bæjarstjórnar no. 317 sem haldinn var 26. mars 2015 tilkynntu meirihluti H-listans án umræðu og einhliða að nýtt bókasafn yrði tekið í notkun 1. maí 2017. Reiknað er með að á árunum 2016 og 2017 fari 80 milljónir hvort ár til byggingar bókasafns auk þess sem gert er ráð fyrir eignasölu að verðmæti 25 milljónum árið 2016 og 30 milljónum 2017 sem einnig eiga að notast vegna bókasafnsbyggingarinnar.

Samtals er því gert ráð fyrir að 215 milljónir fari til verksins. Margar spurningar vakna í þessari stöðu. Það hefur t.d. ekki komið fram kostnaðaráætlun vegna byggingarinnar. Ekki hefur komið fram hver mögulegur kostnaður verður vegna breytinga á skólalóð né hvernig hún verður uppbyggð. Ekki liggur fyrir hvert mötuneyti nemenda fer en fyrirhugað er að skólabókasafnið fari í það rými. Ekki er gert ráð fyrir öðru samkvæmt áætluninni en að byggingin og kostnaður henni tengdri verði lokið árið 2017 og spurning hversu raunhæf áætlun það er. Miðað við stöðuna á byggingarmarkaði er ólíklegt að hagstætt tilboð berist í bygginguna. Ekkert hefur komið fram varðandi sparnað í rekstri vegna sameiningar bókasafnanna en þó er ljóst að miðað við fjármagnskostnaðinn sem af hlýst þá mun kostnaðurinn hækka verulega. Það er nauð-synlegt að þegar farið verður í færslu öldrunarþjónustunnar frá Skólastíg í sjúkrahúsið við Austurgötu verði staða bæjarsjóðs góð og við getum greitt þau 15% af kostnaði við framkvæmdir sem okkur væntanlega ber.“

Frá því þessi fundur var haldinn hefur komið fram að skólabókasafnið verður í nýbyggingunni og mötuneyti skólans verður áfram á þeim stað sem það er núna. Ekki höfum við enn fengið að sjá kostnaðaráætlun en undrun vakti þegar upplýst var að þeir fjármundir sem reiknað er með til verksins og eiga að koma úr eignasölu koma frá sölu gamla skólans (tónlistarskólahúsið) við Skólastíg.

 
Fyrir hönd L-listans, Lárus Ástmar Hannesson, oddviti L – listans