Nýtt Amtsbókasafn í Stykkishólmi

Mikið hefur verið rætt og ritað um Amtsbókasafnið og framtíð þess. Ég er einn þeirra sem nota það mikið og hef sterkar taugar til þess.

Mikið hefur verið rætt og ritað um Amtsbókasafnið og framtíð þess. Ég er einn þeirra sem nota það mikið og hef sterkar taugar til þess. Sumir vilja halda því fram að tilvonandi vatnasafn hafi komið Amtsbókasafninu á vergang. Ég veit svo sem ekki sannleikann í því enda ekki nógu kunnugur þeirri atburðarás, aðrir mér hæfari hafa lýst henni. En hitt veit ég að vatnasafnið ætlar að ýta úr vör byggingu nýs Amtsbókasafns.

       Frá því ég hóf að notfæra mér Amtsbókasafnið hér þá hef ég séð að húsnæðið er stórglæsilegt en algjörlega óviðunnandi sem nútíma bókasafn. Húsið er jafngamalt undirrituðum og hafa væntingar til þess sjálfsagt breyst álíka mikið og væntingar til mín í gegnum árin.

       Því fagna ég fréttum að Amtsbókasafnið fari í nýtt húsnæði. Mikið hefur verið gagnrýnt að safnið eigi að fara í Skipavíkurhúsið, en hafa verður í huga að það er eingöngu tímabundið. Núverandi bæjarstjórn hefur ákveðið að byggt verður nýtt Amtsbókasafn, og er það á tilvonandi stefnuskrá D lista sjálfstæðismanna og óháðra, auk þess að standa að stofnun veðursafns.

Amtsbókasafnið verður hýst tímabundið í Skipavíkurhúsinu meðan bærinn gengur frá núverandi fjárfestingum, þ.e. leikskólanum. Bærinn sparar mikið fé með því að bíða með framkvæmdir í tvö ár, auk þess að huga verður vel að hönnun nýs húsnæðis.

       Það eru tvær hugmyndir sem liggja á borðinu nú. Sú fyrri er að Amtsbókasafnið verði sameinað skólabókasafninu og byggt við nýjan sameinaðan grunnskóla. Hin hugmyndin er að byggt verði sérbygging miðsvæðis undir Amtsbókasafnið. Skipuð hefur verið nefnd um húsnæðismál grunnskóla og tónlistarskóla og á hún að skila áliti í síðasta lagi næsta vor. Samhliða því starfi á að vinna málið út frá þörfum bókasafnsins. Sé niðurstaðan að ekki sé hagkvæmt að sameina bókasöfnin, verður strax ráðist í að hanna sérhæfða byggingu fyrir Amtsbókasafnið og velja henni stað.

       Ég er sammála Rakel Olsen að Amtsbókasafnið er merkasta stofnun bæjarins, og við megum vera mjög stolt af henni, enda næstelsta bókasafn landsins, að því ég best veit.

       Það vill því miður gleymast að nú höfum við tækifæri til að gera vel við bókasafn okkar allra, hvort sem við erum sátt við Skipavíkurhúsið eður ei. Persónulega vildi ég sjá það hverfa og eitthvað í líkingu við húsin umhverfis koma í staðin, en við verðum að vera raunsæ, bærinn hefur ekki efni á að rífa 17 miljón króna byggingu samhliða því að sameina grunnskóla og tónlistarskóla,  auk þess að byggja nýtt Amtsbókasafn. Við verðum að velja og hafna, og valið hefur verið að byggja nýtt bókasafn!

     Ég tel það því ekki mikinn fórnarkostnað að Amtsbókasafnið verði tímabundið í húsnæði til bráðabirgða. Þetta húsnæði opnar líka mikla möguleika í safnaflóru Stykkishólms, því að þegar Amtsbókasafnið flytur í nýtt húsnæði þá fær Skipavíkurhúsið nýtt hlutverk. D-listinn stefnir að því að stofnað verði veðursafn í Stykkishólmi í samstarfi við Veðurstofu Íslands, og þá höfum við hentugt endurbætt húsnæði í miðbæ Stykkishólms.

       Það er gaman að horfa nokkur ár fram í tímann og sjá hér gróskumikla safnaflóru, vatnasafn á Þinghúshöfðanum, nýtt Amtsbókasafn við sameinaðan grunnskóla eða miðsvæðis, og veðursafn í miðbænum.

                                                                Magnús A. Sigurðsson á Borg