Okkar ástkæra ilhýra eða dú jú spík englis

Pistill Sigga Palla

Oft hefur maður fengið að heyra og haldið því þar af leiðandi oft fram sjálfur, af því ég er svo áhrifagjarn, að það sem gerði okkur af sjálfstæðri og sérstakri þjóð væri tungumálið. Þetta er skoðun, kenning eða jafnvel fullyrðing sem mikilsmetandi menn og konur hafa haldið fram, og er mér þar ofarlega í huga Vigdís Finnbogadóttir, en hún hefur verið óþreytandi við að halda þessu á lofti. Þetta vekur svo sterkt upp í manni þjóðerniskenndina að tifinningar Gunnars á Hlíðarenda endurholdgast er hann horfði á hlíðina fögru forðum. Fátt er betra en að geta verið stoltur Íslendingur og eiga þetta ástkæra og ilhýra tungumál, sem þó innfluttum Íslendingum gengur misvel að læra og  brúka, ef maður lendir á tali við fólk sem er af erlendu bergi brotið og á erfitt með að gera sig skiljanlegt á íslensku segir maður einfaldlega, dú jú spík englis, þá segir viðkomandi sem er kannski Pólverji, jes djöst a litl, verður þá  samtalið á einhverskonar ensku sem hvorugur aðilinn er sæmilegur í getur maður lent í stökustu vandæðum, því mín enskukunnátta rúmast fyrir í frekar litlu herbergi, ef svo má að orði komast. Oftar en ekki verða slík samtöl vandræðaleg og endasleppt. Svo næst þegar við verðum á vegi hvors annars þessi innflutti Íslendingur og ég vinkumst við vingjarnlega um leið og við mætumst og pössum okkur á að segja ekki orð hvor við annan svo við lendum ekki í sömu vandræðunum og síðast, þar af leiðandi verður hann eða hún seinna skiljanlegri á íslensku, og ég alls ekki betri í ensku og að öllum líkindum okkar kynni ekki meiri. Það er kannski ekkert skrítið að útlendingar sem hingað flytja eiga oft, en ekki alltaf, erfitt með að samlagast okkur sem innfædd erum ef við nennum ekki að tala við þau á því tungumáli sem allir eiga að nota sem eru íslenskir þjóðfélagsþegnar, eða erum við svo stolt af okkar tungu að við getum ekki notað hana nema viðkomandi sé örugglega fæddur og uppalinn hér norður á hjara veraldar. Hvernig fer Hildibrandur í Bjarnarhöfn að gera sig skiljanlegan við alla þá útlendinga sem til hans koma frá hinum og þessum löndum? Hann talar við þá á íslensku hátt, hvellt og skýrt svo þeir skilja hvert einasta orð sem af munni hans hrýtur og þarf engrar nánari útskýringar við, hann meira að segja fer með fyrir þá vísur og ljóð, ef þannig ber undir, af svo mikilli innlifun að innihald þeirra þarf ekki nánari skýringar við eða þá viðgjörningurinn sem er bæði í föstu og fljótandi formi hjá þessum íslenska útvegsbónda, hann er varla hægt að nefna nema á íslensku. Já okkar íslenska tunga á ekkert að vera einkamál innfæddra heldur skal hún töluð og það mikið við alla þá sem uppá sker þetta reka, áfram Ísland og Silvía nótt líka.

                            

                             Siggi Palli. Sæbarinn Íslendingur.