Okkar Stykkishólmur – Hver er Haukur?

Haukur Garðarsson, 1. sæti, Okkar Stykkishólmur

Þá er komið að því, tíu árum eftir að aðkomumaðurinn flutti í bæinn þarf hann að gera grein fyrir sér. Reyndar var ég kynntur sem „Tengdasonur Stykkishólms“ í Stykkishólmspóstinum fyrir 10 árum. Ég hef aldrei fengið útskýringu á hvaða skyldur fylgja hlutverkinu en hingað til hefur ekkert verið kvartað yfir frammistöðu minni.

Ástæða fyrir komu minni í Stykkishólm er sú að ég kolféll fyrir „Dóttur Stykkishólms“ eða kannski „Tengdadóttur Raufarhafnar“, Elínu Elísabetu Hallfreðsdóttur. Rætur hennar lágu djúpt í jarðveginum hérna svo hana langaði mikið að flytja aftur heim. Ég lét til leiðast, í fyrstu með semingi, en eftir að hafa búið hérna í smá stund var ekki aftur snúið.

Ég er uppalinn á Raufarhöfn en eftir grunnskólann lá leiðin í heimavist Framhaldsskólans á Laugum og svo Verkmenntaskólann á Akureyri. Að því loknu fór ég tölvunarfræðinám í Háskóla Íslands með viðskiptafræði sem aukafag. Ég vann með námi í hugbúnaðarþróun á framleiðslustjórnunarkerfi fyrir fiskeldi og fljótlega eftir úrskrift stofnaði ég fyrirtæki með tveimur félögum mínum og tókum við yfir þróun og þjónustu á kerfinu. Þetta kerfi varð á meðal þeirra útbreiddustu í heiminum og í notkun í Noregi, Chile, Kanada, Skotlandi, Færeyjum og víðar og því gat þjónustan við kerfið orðið snúin, m.a. vegna tímamismunar, fjarlægðar og menningarmunar. Lengst af gegndi ég stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins, og þegar það stækkaði áttum við því láni að fagna að vera með þéttan hóp starfsfólks með góðan fókus á krefjandi verkefnin. Þessi lærdómsríki og skemmtilegi tími mun alltaf standa upp úr í minningunni. Eftir sjö ár var hugbúnaðurinn seldur, sumir starfsmenn fóru með verkefninu en ég ákvað breyta til og fara til Danmerkur þar sem Ella hafði byrjað að læra til sjúkraþjálfara árið áður. Þar vorum við í fjögur ár og var ég þar í meistaranámi í alþjóðlegum fjármálum og hagfræði ásamt því að sinna ýmsum styttri verkefnum. Ívar Leo, frumburður okkar, fæddist í Danmörku og þá fór hugurinn að leita heim. Ella réði sig á endurhæfingardeild spítalans í Stykkishólmi og er þar enn. Ég fór á grásleppuvertíð með tengdaföður mínum og náði þannig að bæta upp fyrir eitthvað sem Ella hafði alltaf haft fram yfir mig. Þá um haustið réði ég mig sem skrifstofustjóra hjá RARIK, starf sem ég gegni enn. Við höfum komið okkur vel fyrir hérna og bæst hafa við tvö börn, þau Arnar Franz og Hjördís Ella.
Ég hef alltaf gefið mig í félagsstörf, en ákvað að halda því í lágmarki meðan börnin mín væru ung. Í Stykkishólmi hef ég þó m.a. þjálfað kvennablak, setið í skólanefnd og stjórn golfklúbbsins Mostra og er núverandi formaður foreldrafélags GSS. Einnig hef ég tekið þátt í fjölda tónlistarverkefna sem hafa verið sérstaklega skemmtileg og gefandi.

Það er von mín að ég hafi talsvert fram að færa þegar kemur að nútímavæðingu stjórnsýslu sveitarfélagsins, með betra og auðveldara aðgengi að upplýsingum og aðkomu íbúa að mikilvægum málum. Opið bókhald tel ég mjög öflugt verkfæri og í því sambandi má nefna að í starfi mínu hjá RARIK undirbý ég gögn og set upp skýrslur með sams konar verkfærum og notuð hafa verið til að birta opið bókhald hjá mörgum sveitarfélögum, og hef því víðtæka þekkingu á þessu sviði. Áherslur Okkar Stykkishólms varðandi heildargreiningu á þörfum sveitarfélagsins og gerð framkvæmda- og viðhaldsáætlana með langtímasjónarmið að leiðarljósi tel ég mjög mikilvægar, því fjölmörg aðkallandi verkefni eru fram undan og nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn þegar verkefnum er forgangsraðað.

Haukur Garðarsson, 1. sæti, Okkar Stykkishólmur