Okkar Stykkishólmur – Hver er Theó?

„Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum“ sagði Gandhi. Þessi setning hefur fylgt mér síðastliðin átta ár, síðan ég tók við starfi umhverfisfulltrúa Snæfellsness. Þessi setning er svolítið ástæða þess að ég, sem hef almennt haft lítinn áhuga á pólitík eða framapoti, er í þriðja sæti á lista Okkar Stykkishólms. Ég bara stóðst ekki mátið þegar ég fékk færi á að vinna með góðu fólki að mikilvægum breytingum í samfélaginu.

Okkar Stykkishólmur er einmitt framboð sem hentar mér, sem með gleði og samstarf í fyrirrúmi stefnir að því að hampa því sem við eigum nú þegar í Hólminum, ásamt því að bæta það sem bæta má. Frá því að ég flutti í Hólminn hef ég sinn samfélagsverkefnum nokkuð ötullega í frítíma mínum, mér til mikillar ánægju. Ég aðstoðaði við umsókn um viðurkenningu Stykkishólms sem gæðaáfangastaðar (EDEN verðlaun Evrópuráðsins) auk þess sem ég tók þátt í að reyna að losa Stykkishólm við plastpokana í samstarfi við Umhverfishóp Stykkishólms. Nýjasta verkefnið, barnið okkar Söru á Sjávarpakkhúsinu, er svo Stykkishólms Bitter. Þar leiðum við saman veitingamenn og matvælaframleiðendur í Stykkishólmi og reynum að hampa því sem vel er gert ásamt því að hafa gaman.

Ég hef komist að því að í Stykkishólmi býr bóngott og jákvætt fólk sem er til í að taka þátt í ýmsu. Ég er því sannfærð um að gildi Okkar Stykkishólms muni fá góðar undirtektir. Ég vil hjálpa til við að gera Hólminn að samfélagi þar sem gleðin er við völd, þar sem fólki líður vel og tekur þátt. Samfélag sem leggur áherslu á sjálfbærni; það er að byggja upp iðnað, ferðaþjónustu eða eitthvað allt annað án þess að ganga nærri náttúru, íbúum, starfsmönnum, fjármunum eða hverju því sem samfélag byggir á.

En hver er ég eiginlega?

Ég er svo heppin að hafa alist upp með margar nánar og góðar fyrirmyndir í lífi mínu sem hafa innrætt mér jákvæðni, bjartsýni, umhverfisvernd, náttúruást, lýðræði og jafnrétti.

Ég er ættuð úr Reykjavík en alin upp á Hvammstanga fyrstu tíu ár lífs míns. Þá flutti ég, nauðug viljug, til Reykjavíkur en pabbi vill meina að ég sé alltaf að leita að nýjum Hvammstanga. Kannski er nokkuð til í því vegna þess að þó ég hafi eytt mörgum árum í framhaldsnám í Reykjavík, þá passaði ég upp á að eyða öllum mínum sumarfríum úti á landi. Hef til dæmis búið á Húsavík, í Hrauneyjum og í Búrfelli – þar sem ég vann við vatnamælingar.

Eftir að hafa lokið ferðamálafræði og jarðfræði frá Háskóla Íslands vann ég sem borholujarðfræðingur í nokkur ár. Fann þó fljótlega að það samræmdist ekki mínum lífsskoðunum svo ég stökk til þegar mér bauðst vinna við umhverfismál á Snæfellsnesi og flutti í Stykkishólm. Og viti menn, hér hef ég fundið Hvammstangann minn, hér vil ég vera!

Ég er búin að koma mér vel fyrir við sjóinn þar sem ég bý með Atla Rúnari Sigurþórssyni, dekkjakóngi og fyrrverandi körfuboltahetju, að eigin sögn. Við eigum saman Arneyju Lilju, 5 ára og Matthías Ara, 2 ára auk þess sem strákurinn hans Atla, Oddfreyr Ágúst, á hjá okkur sitt annað heimili.

Nú starfa ég sem ritari Breiðafjarðarnefndar í hlutastarfi auk þess að reka upplifunarfyrirtækið Stykkishólm Slowly með vinkonu minni og frænku, Mæsu. Tilgangurinn með stofnun Slowly var (fyrir utan að reyna að skapa okkur tekjur – sem eiginmönnum okkar finnst stundum lenda neðarlega í forgangsröðun fyrirtækisins) að nýta allt það frábæra sem þegar er til staðar í Stykkishólmi og sameina það í eitthvað alveg einstakt. Gefa þannig gestum okkar innsýn í það sem okkur sjálfum finnst svo heillandi við Hólminn. Því eins og kvæðið segir þá „heillar Hólmurinn“.

Theódóra Matthíasdóttir,
3. sæti, Okkar Stykkishólmur