Okkar Stykkishólmur – Nýtt framboð?

Undanfarna mánuði hefur vaxandi hópur fólks í Stykkishólmi hist á óformlegum fundum. Við sem í hópnum erum, eigum það sameiginlegt að vera mjög umhugað um framtíð fallega bæjarins okkar. Við erum reiðubúin að leggja hönd á plóg með einum eða öðrum hætti í þágu samfélagsins, en þó án þess að taka þátt í eða binda okkur við flokkapólitík. Hópurinn er grasrótarhreyfing og samanstendur af fjölbreyttu fólki sem myndi eflaust greiða atkvæði á mjög mismunandi vegu í Alþingiskosningum en hefur þó sameiginlega sýn á nokkur grundvallaratriði þegar kemur að stjórnun og rekstri sveitarfélagsins okkar. Við höfum þannig mótað okkur áherslur eða gildi, sem hópurinn stendur fyrir, hyggst vinna eftir og leitast við að breiða út. Í grófum dráttum má skipta þessum gildum í fjóra meginflokka:

1) Þátttaka íbúa og aukið lýðræði. Við teljum eðlilegt og jákvætt að einstaklingar og hópar taki virkan þátt í umræðum um samfélagsmál, og að sveitarfélagið skapi þeim vettvang til þess. Við teljum einnig ákjósanlegt að í stað einfalds meirihlutaræðis verði lýðræði framkvæmt með sanngjörnum málamiðlunum, þar sem tekið verði tillit til fjölbreyttra sjónarmiða í samræmi við vilja íbúa og gildi hópsins. Auðvelda þarf aðkomu almennings að ákvarðanatöku, einkum í stærri eða umdeildum málum, með upptöku beins lýðræðis sem stundað væri á sem flestum stigum máls. Þessu má m.a. koma til leiðar með reglulegum íbúafundum og rafrænum skoðanakönnunum.

2) Gagnsæi og heiðarleiki. Að sjálfsögðu eiga kjörnir fulltrúar að starfa samkvæmt samþykktum siðareglum kjörinna fulltrúa Stykkishólmsbæjar og hafa heiðarleika í hávegum. Til að sýna fram á að það sé gert og til að greiða fyrir málefnalegri umræðu í samfélaginu er þörf á auknu gagnsæi. Ákvarðanataka verður að vera opin, málefnaleg, skýr og auðskiljanleg. Til að svo verði leggjum við til að fundir bæjarstjórnar verði teknir upp og settir á netið, að fylgiskjöl erinda verði látin fylgja fundargerðum á heimasíðu bæjarins, að bókhald bæjarins verði opnað og opnir kynningar- og umræðufundir verði haldnir með reglulegri hætti. Einnig væri ákjósanlegt að bæjarfulltrúar nýttu bæjarblaðið í auknum mæli til að koma upplýsingum til íbúa um gang mála.

3) Fagmennska og traust. Traust íbúa á stjórnsýslunni er ein forsenda farsæls samfélags. Við teljum það markmið helst geta náðst með gerð ítarlegrar og faglega unninnar heildargreiningar á þörfum sveitarfélagsins fyrir starfsfólk, viðhald og byggingu húsnæðis, aðrar framkvæmdir o.fl., sem verði í framhaldinu notuð sem grunnur að forgangsröðun og ákvarðanatöku. Slík þarfagreining byggist á úttekt og ráðgjöf fagmanna ásamt greiningu á vilja íbúa og starfsfólks sveitarfélagsins. Niðurstaða greiningarinnar yrði sanngjörn málamiðlun með hagsmuni íbúa að leiðarljósi og tryggði að verk væru unnin á grunni þarfar, fagþekkingar og samráðs. Með hliðsjón af þarfagreiningu og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins yrði útbúin tímasett framkvæmdaáætlun sem fylgt yrði út kjörtímabilið – og lengur þar sem við ætti.

4) Sjálfbærni og langtímasjónarmið. Við teljum sérlega mikilvægt að við ákvarðanatöku verði ávallt hugsað í heildarsamhengi og til framtíðar. Þannig þarf að innlima sjálfbærni, í víðasta skilningi þess hugtaks, og langtímasjónarmið í alla ákvarðanatöku sveitarfélagsins. Náttúran verði látin njóta vafans og henni skilað í jafn góðu eða betra ásigkomulagi til komandi kynslóða en þegar tekið var við henni og gripið verði til mótvægisaðgerða ef talið er nauðsynlegt að raska náttúrulegum búsvæðum. Atvinnuuppbygging eigi sér þannig stað í sátt við íbúa og umhverfi, enda tryggir það langtímaávinning allra.

Þar sem gildi hópsins snerta okkur öll sem hér búum, hefur hópurinn gengið undir nafninu „Okkar Stykkishólmur“. Á næstu vikum og mánuðum munu meðlimir hópsins skrifa nánar um áherslur og hugmyndir okkar, og einnig verður á næstunni opnuð heimasíða með frekari upplýsingum. Hópurinn er enn í mótun en stefnir á þátttöku í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Ef þessi gildi höfða til þín og þú hefur áhuga á að vinna með okkur, hvet ég þig eindregið til að hafa samband.

F.h. „Okkar Stykkishólms“,
Menja von Schmalensee/okkarsty@gmail.com