Opið bréf til starfsmanna Vegagerðarinnar á Vesturlandi og Vestfjörðum.

billSævar heiti ég og á og rek ásamt bróður mínum Hafþóri flutninga- og verktakafyrirtækið BB & syni ehf.

Þar sem við erum mikið í flutningum norður í land að sækja fisk sem við flytjum í Stykkishólm þá þurfum við að fara alla leið í Borgarnes og svo norður þar sem ekki er hægt að keyra um Skógarströnd og Laxárdal. Þar er umferð að verða svo þétt allt árið að ekki er lengur nema í neyð hægt að aka um þessa vegi. Vegna þess að þeir eru mjóir og búið er að hefla upp allt efni í köntum og mjókka þá og líka vegna umferðar.

Við þurfum að stoppa í hvert skipti sem við mætum bílum jafnvel þó þeir séu ekki stórir. Annað vandamál er líka að lenda á eftir bílum sem eru bara á „rúntinum“ um þessa erfiðu vegi. Mikið af bílstjórum, sérstaklega þeir sem eru á bílaleigu bílum er bara alveg sama þó við þurfum að keyra á eftir þeim í langan tíma á 15-20 km hraða þeim virðist bara vera fyrirmunað að skoða hvað er að gerast fyrir aftan þá. Nóg um þetta vandamál við þessu er lausn og hún er að nota Snæfellsnesveg í Borgarnes og þaðan norður.

En annað og öllu meira mál er að við erum einnig að flytja umbúðir, fóður og fl. á sunnanverða Vestfirði og ferskan lax til baka. þá þurfum oft að fara um Stykkishólm þá erum við neyddir til að keyra Skógarströnd og svo yfir alla hálsa og heiðar vestur á Bíldudal.

Er ekki löngu kominn tími til að tengja Snæfellsnesið við Vestfirði og Norðurland með góðum malbikuðum vegi, vegi sem þarf ekki að vera eins langur og hann er í dag þar sem mikið er hægt að stytta og gera hann beinni þar sem nú er að koma 2017 og vegirnir eru en að miklu leit þar sem hestaslóðarnir voru um 1900?

Vegirnir um Hjallaháls og Ódrjúgsháls eru ekki heldur til fyrirmyndar fyrir nokkurn mann og alveg til skammar að ekkert hafi verið gert í þeim málum í lok 2016 og telja flutningsaðilar þar um að kenna að fólkið sem á landið um Teigskóg sé á réttum stað í pólitík að ekki megi hrófla við landi þeirra.

Afhverju er vegurinn ekki bara færður í vegastæði A1 og þá fá íbúar Reykhóla tengingu við nútíma þjónustu í flutningum og við fólkið í landinu um leið og vegurinn er lagður af um heilögu hálsana Hjalla og Ódrjúgsháls?

Einnig er það mikilvægt að vetrarþjónusta verði stór aukin á þessum vegum um sunnanverða Vestfirði áfram verður ekki við unað að flutningsaðilar verði að vera með sín eigin tæki á hálsum til að draga flutningstækin sín upp hálsa á Vestfjörðum eins og hefur verið að gerast bæði vegna snjóa og drullu.

Nú leggjum við hjá BB & sonum enn meiri á herslu á að vegir á þessum svæðum verði gerðir að vegum sem hægt er að aka um allt árið allavega meðan ekki er hægt að notast við ferju Sæferða sem er jú með samning við Vegagerðina um flutning á bílum og öðrum vörum yfir Breiðafjörðinn. Þar sem í samningum ykkar á milli hefur greinilega ekki mikið verið kveðið á um að tryggingar séu í lagi.

Sæferðir virðast ekki þurfa að vera með farm né farangur tryggðann um borð í ferjum félagsins. Veit ekki hvort eitthvað er um það í skilmálum af ykkar hálfu en þeir eru þá alla vega ekki að uppfylla þann skilmála að neinu leiti og ætla sér ekki að bæta þar úr miðað við svör Gunnlaugs Grettirssonar um tryggingamál í ferjum félagsins Sæferða. Hann svarar tölvupósti um tryggingamál þeirra að mál okkar „hafi farið sína réttu leið í dómskerfinu.“ Sem þýðir þá væntanlega að þeir ætli að svara öllum sínum tjónum með málsókn sem gerir það að verkum að allir sem verða fyrir tjóni af þeirra völdum þurfi að fara gegnum dómskerfið með tilheyrandi kostnaði og óvissu um að mál eins og upp kom í okkar tilfelli lendi alfarið á tjónþola.

Þannig eru nú mál okkar að 20. des 2011 veltu þeir trailer frá fyrirtæki okkar og neita að borga þar til þeir sáu að ekki væri neitt annað í stöðunni en að bæta tjónið. Þeir báðu okkur um að klára málið með lögmönnum þar sem mikil vinátta væri milli manna í þessu máli. Þess vegna væri farsælast að leysa þetta með lögmanni sem að við og gerðum. Vináttan var svo mikil að lögmanni okkar var svarað af fullri hörku. Að endingu féll þetta mál á dómi í héraði og hæstarétti 2016 að málið væri fyrnt og allur kostnaður féll á okkur og einnig þurftum við að greiða þeim allan málskostnað. Það var ekki nóg að við töpuðum bíl og vagni heldur þurftum við að greiða Eimskip fyrir viðgerð á gámi, gámi sem var á okkar bíl í þessu tjóni um borð í Baldri ms.

Stjórnendur Sæferða komu svo óheiðarlega fram í okkar málum að það er með ólíkindum að þeir séu mennskir.

Málið var dæmt fyrnt þannig að aldrei var farið neitt í saumana á málsatvikum um hvað raunverulega gerðist um borð þennan örlaga dag í ferjunni. Málið fyrndist á einu ári en rúmlega ári eftir tjónsdag kom t.d. loksins skýrsla frá Rannsóknarnefnd sjóslysa en þá var málið fyrnt.

Þess ber að geta að Sæferðir biðu afhroð í skýrslu þeirra. Reyndar eins og í öllum þeim skýrslum sem um þetta voru skrifaðar og video myndum sem til eru af þessu tjóni um borð í Baldri og munum við birta þær á öllum þeim stöðum sem hægt er að koma þeim að fyrir. Fyrir alla þá sem áhuga hafa á þessu máli, sem eru mjög margir og höfum við fundið fyrir gríðalegum stuðningi í því öllu.

Tjón okkar af þessari einu ferð um Breiðarfjörð í boði Sæferða er um 20 milljónir+ þess vegna leitum við til ykkar hvort þetta teljist ásættanleg framkoma af ykkar verktaka að vera ekki með viðeigandi tryggingar og þeir þurfi ekki að svara neinu hvorki til ykkar né okkar varðandi tryggingar þeirra ef tjón verður á eigum þriðja aðila um borð eða á vinnu svæði í ykkar boði?

Á meðan ekki koma skýr svör eða bætur vegna þess tjóns sem við fengum á okkur af verktaka ykkar förum við skilyrðislaust fram á vegur milli Stykkishólms og Brjánslækjar verði gerður góður og fær allt árið. Ekki bara að hann verði heflaður þegar á þarf að halda, líka að honum verði haldi færum alla daga vikunnar vegna snjóa. Til þess að svo megi vera þarf að koma til mikilla bætingar af ykkar hálfu þar sem þjónusta á þessum vegum hefur ekki verið ykkur til framdráttar hingað til frekar en tjóna þjónustan um borð hjá Sæferðum.

Einnig er spurning hvort vegabætur eiga ekki að fara eiga sér stað á þessum vegum? Hvort ekki þurfi að bjóða út þjónustuna yfir Breiðafjörð að nýju, bæta þá við skilmála af hálfu Vegagerðarinnar að tryggingar verði að vera í lagi og einnig réttindi starfsfólks um borð séu fengin með eðlilegum hætti. Í gegnum skóla en ekki spillingu eins og var þegar skipstjóri ferjunnar í þessari meintu siglingu ferjunnar Baldurs. Hann lauk ekki við nema eitt ár í skóla en var svo allt í einu kominn með full réttindi á stóra farþegaferju sem siglir yfir hættulegan fjörð í ykkar boði með bíla, fólk og allt án trygginga.

Ég get auðveldlega sent ykkur öll gögn um þetta mál ef vilji er fyrir hendi.

Kveðja Sævar Benediktsson

BB & synir ehf

Reitarvegur 16, 340 Stykkishólmi