Opið bréf til velferðarráðherra Guðbjarts Hannessonar og forseta bæjarstjórnar Stykkishólms

Í nýjasta tölublaði Stykkishólmspóstsins skrifar velferðarráðherra  um framtíðaruppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Stykkishólmi. Hann greinir frá áformum um endurbætur á spítalanum okkar og segir frá stórfelldum framkvæmdaáformum sem ber að þakka. Hann segir að „Samtals er gert ráð fyrir 500 m.kr. framlagi til framkvæmdanna í ár og á því næsta“.   En hann gerir um leið mjög lítið úr öldrunarþjónustunni í Stykkishólmi þegar hann segir;  „Öldrunarþjónusta hefur einnig verið veitt af bæjarfélaginu um áraraðir á Dvalarheimili aldraðra við heldur snautlegan húsakost“. Ekki veit ég hvers vegna ráðherrann notar tækifærið til þess að gera lítið úr þeirri þjónustu sem veitt hefur verið á Dvalarheimilinu. Auðvitað er gamli hluti Dvalarheimilisins barn síns tíma en þar hefur öldruðum verið veitt frábær þjónusta  af því góða fólki sem þar hefur starfað auk þess sem nýlegar íbúðir fyrir aldraða eru þar. Íbúar þeirra njóta góðrar aðhlynningar frá Dvalarheimilinu sem er ómetanlegt.

 

Í nýjasta tölublaði Stykkishólmspóstsins skrifar velferðarráðherra  um framtíðaruppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Stykkishólmi. Hann greinir frá áformum um endurbætur á spítalanum okkar og segir frá stórfelldum framkvæmdaáformum sem ber að þakka. Hann segir að „Samtals er gert ráð fyrir 500 m.kr. framlagi til framkvæmdanna í ár og á því næsta“.   En hann gerir um leið mjög lítið úr öldrunarþjónustunni í Stykkishólmi þegar hann segir;  „Öldrunarþjónusta hefur einnig verið veitt af bæjarfélaginu um áraraðir á Dvalarheimili aldraðra við heldur snautlegan húsakost“. Ekki veit ég hvers vegna ráðherrann notar tækifærið til þess að gera lítið úr þeirri þjónustu sem veitt hefur verið á Dvalarheimilinu. Auðvitað er gamli hluti Dvalarheimilisins barn síns tíma en þar hefur öldruðum verið veitt frábær þjónusta  af því góða fólki sem þar hefur starfað auk þess sem nýlegar íbúðir fyrir aldraða eru þar. Íbúar þeirra njóta góðrar aðhlynningar frá Dvalarheimilinu sem er ómetanlegt. En það var fleira sem vakti upp spurningar í mínum huga þegar ég las grein ráðherrans. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er ekki að finna þau fjárframlög sem ráðherrann nefnir. Í lögum um skipan opinberra framkvæmda kemur m.a. fram. „Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og annars aðila er eigi heimilt að hefja opinbera framkvæmd fyrr en fé hefur verið veitt til hennar í fjárlögum og undirritaður hefur verið samningur viðkomandi ráðuneytis og aðilans með áritun fjármálaráðuneytisins er tryggi að fjármagn verði handbært á framkvæmdatímanum í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr. Eigi sveitarfélag hlut að máli og sé í greiðsluáætlun gert ráð fyrir framlögum úr sveitarsjóði nægir um það atriði skrifleg yfirlýsing sveitarstjórnar um að á framkvæmdatímanum verði fjárhæðir teknar á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr.“ Því langar mig til þess að fá svör við eftirfarandi spurningum frá ráðherranum og gott væri að forseti bæjarstjórnar veitti lesendum Stykkishólmspóstsins einnig svör.

1. Liggur fyrir staðfesting fjármálaráðherra vegna þessara framkvæmda sem eiga að kosta 1.1milljarð króna?

2. Liggur fyrir skipting kostnaðar við framkvæmdir og rekstur milli bæjarins og ríkisins?

3. Hefur verið gerður samningur milli fjármálaráðherra og velferðarráherra annars vegar og bæjaryfirvalda hinsvegar?

4. Hefur Alþingi samþykkt fjárveitingu til þessa stóra verkefnis eins og lög gera ráð fyrir áður en framkvæmdir geta hafist (ekki er að finna fjárveitingu í fjárlögum ársins 2013)?

5. Hefur stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra samþykkt framlag til þessa verkefnis?

6. Er gert ráð fyrir framlögum úr sveitasjóði og ef svo er liggur fyrir skrifleg yfirlýsing sveitarfélagsins?

7. Hvert verður hlutverk „snautlegs“ húsnæðis Dvalarheimilisins og hvernig verður staðið undir fjárskuldbindingum þess eftir flutning hjúkrunar- og dvalarrýma?

8. Hvernig verður þjónustan við íbúa í íbúðunum við Dvalarheimilið tryggð þegar hjúkrunar og dvalarrými hafa verið flutt á sjúkrahúsið?

9. Hvar er gert ráð fyrir félagsstarfi fyrir íbúa hjúkrunar- og dvalarrýma og aðra íbúa sveitarfélagsins eftir flutninginn?

Það er von mín að þessum spurningum verði svarað áður en gengið verður að kjörborði  síðar í mánuðinum.

Erla Friðriksdóttir, formaður heilbrigðishóps Þróunarfélags Snæfellinga