Opinn skógur á Tröð

Laugardaginn 15. júlí sl. var Tröð á Hellissandi, svæði Skógræktar- og landverndar-félagsins undir Jökli, opnað formlega undir merkjum „Opins skógar“ skógræktar-félaganna með hátíðlegri athöfn.

[mynd]Laugardaginn 15. júlí sl. var Tröð á Hellissandi, svæði Skógræktar- og landverndar-félagsins undir Jökli, opnað formlega undir merkjum „Opins skógar“ skógræktar-félaganna með hátíðlegri athöfn.
Veðurguðirnir voru ekki blíðir þennan dag, það var rigning og rok og nánast ágjöf, en enn sönnuðu sig skjóláhrif trjánna svo athöfnin var hin ánægjulegasta og á annað hundrað manns mættu í Tröðina og undu sér ágætlega.
Skúli Alexandersson, formaður Skógræktar- og landverndar-félagsins undir Jökli, setti hátíðina. Jóhann Hjálmarsson skáld las ljóð. Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktar-félags Íslands og Kristinn Jónasson sveitarstjóri Snæfellsbæjar fluttu ávörp. Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjóvá – Fjármögnunar hf. flutti ávarp en fyrirtæki hans og Pokasjóður voru styrktaraðilar þessa átaks í Tröðinni.   Grétar Jónsson, sonur Kristjóns Jónssonar sem hóf skógrækt í Tröðinni, tók til máls og sagði m.a. að faðir hans hefði verið góður og gegn íhaldsmaður alla tíð en þó aldrei sóttst eftir þeim auði sem veraldlegur kallast, með einni undantekningu. Hann hefði verið vakinn og sofinn í því að þefa uppi skít um allar grundir í nágrenninu og ásælst hann í Tröðina!
Einar K. Guðfinnson, sjávarútvegsráðherra, opnaði „Opinn skóg“ í Tröð á Hellissandi með táknrænum hætti. Hann flutti fyrst ávarp og sagði að einhverjir vina hans hefðu furðað sig á að sjávarútvegsráð-herra væri að opna skóg og hefðu spurt sig hvort að þetta væri þaraskógur!  En nálægð Traðarinnar við þetta fornfræga sjávarpláss, Hellissand, og ágjöfin þennan dag hlytu að sanna réttmæti þess að hann fengi þann heiður að opna skóginn í Tröðinni.  Að svo búnu opnaði hann „Opinn skóg” í Tröð með því að gróðursetja fallega hlynplöntu og fórst honum það verk vel úr hendi.
Þá var gengið um Tröðina og aðstaðan og skógurinn skoð-aður. Boðið var upp á léttar veitingar í lokin og allir fóru ánægðir heim.     
                                                                                                                            fréttatilkynning