Orð í belg

Lesendur Stykkishólmspóstsins hafa undanfarna mánuði fengið að fylgjast með því hvernig Elínu Bergmann hefur gengið að velja á milli þeirra sem bjóða sig fram til starfa í sveitarstjórn nú í vor.

Lesendur Stykkishólmspóstsins hafa undanfarna mánuði fengið að fylgjast með því hvernig Elínu Bergmann hefur gengið að velja á milli þeirra sem bjóða sig fram til starfa í sveitarstjórn nú í vor. Hún hefur komist að niðurstöðu og það finnst mér gott þótt ég af „yfirlæti“ mínu leyfi mér að halda því fram að hún hefði getað valið betri kost. Það verður bara að hafa það og ég veit að þrátt fyrir það á ég eftir að eiga gott samstarf við hana eins og aðra vinnufélaga okkar sem hafa verið keppinautar mínir um hylli kjósenda í tvennum undanförnum kosningum.

      Ástæða þess að ég legg hér orð í belg er að ég tók til mín skrif Elínar í síðasta Pósti þar sem hún lýsir einkennum þeirra sem hafa starfað fyrir D-listann í bæjarstjórn. Þeir eru – að hennar sögn – yfirlætis- og hrokafullir, völdin hafa spillt þeim og lýðræðið flækist fyrir þeim. Á milli línanna má svo lesa að þeir ástundi skoðanakúgun og fólk eins og hún þurfi að fara varlega með að opinbera skoðanir sem þessu fólki er ekki að skapi.

      Þar sem ég hef verið bæjarfulltrúi fyrir D-listann undanfarin tvö kjörtímabil get ég ekki annað en tekið þessa lýsingu til mín þrátt fyrir alla fyrirvara sem Elín hefur um „suma“ og „marga“ sjálfstæðismenn. Ekki veit ég t.d. hverja hún á við þegar hún talar um „þá sjálfstæðismenn sem eru að spjara sig vel“. Og þá ekki „af eigin rammleik“ heldur er gefið í skyn að velgengni þeirra eigi sér einhverjar óeðlilegar skýringar.

      Ég á bágt með að sitja þegjandi undir þessum dylgjum og mótmæli svona málflutningi þótt einhverjir kunni að kalla það yfirlæti, hroka eða jafnvel skoðanakúgun í mér.

      Raunar er grein Elínar sorglegt dæmi um lymskufullan áróður sem ég vona að kjósendur sjái í gegnum. Málflutningur sem þessi er ekki samboðinn því fólki sem Elín lýsir stuðningi við, hann er þeim ekki til framdráttar í kosningabaráttunni og hann lítilsvirðir þá kjósendur sem hafa stutt D-listann undanfarna áratugi.

      Einu er ég þó sammála í grein Elínar. Það er ekki víst að það sé mikill munur á stefnumálum framboðanna, og vafalaust ætla allir frambjóðendur að leggja sig fram um að vinna vel fyrir Stykkishólm, en það er spurningin um hverjum kjósendur treysta best til þeirrar vinnu sem kosningarnar 27. maí eiga að svara. Og ég er ekki í vafa hverjum ég treysti og hvert ég vil að svarið verði.

      Ég held það hafi ekkert með genin mín að gera – enda koma þau af Skógarströnd, Staðarsveit, Helgafellssveit og Dýrafirði og hafa svo mallað hér í Hólminum síðastliðin hundrað ár – en ég treysti D-listanum betur til þess að leiða bæjarstjórnina næstu fjögur árin og á ég þó góða vini og náin skyldmenni í báðum framboðunum.

 

Eyþór Benediktsson